18.4.2016

Afsögn Sigmundar Davíðs knýr Ólaf Ragnar til framboðs

Ólafur Ragnar Grímsson (ÓRG) hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta í sjötta sinn. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á Bessastöðum klukkan 16.15 í dag. Hann svaraði síðan spurningum blaðamanna og sagði að ákvörðunin hefði verið að mótast með sér undanfarna þrjá til fjóra sólarhringa. Hann margítrekaði að með því að hverfa frá ákvörðun sinni um að hætta við að hætta kæmi hann til móts við óskir fjölmargra sem teldu hann ekki geta vikið úr embætti á þessum tímum sem ÓRG lýsti sem „umróti óvissu og mótmæla“ í um 400 orða yfirlýsingu sem hann las. Hann sagði það skyldu sína að verða við þessu ákalli og Dorrit forsetafrú væri sama sinnis, hún teldi hann ekki geta vikist undan óskum þeirra sem settu traust sitt á hann.

Á blaðamannafundinum var ÓRG spurður hvort hann hefði verið með utanþingsstjórn á hendi þegar hann ræddi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson (SDG) áður en hann sagði af sér sem forsætisráðherra. ÓRG vitnaði í SDG sem hefði sagt tvo kosti í stöðunni, að ríkisstjórnin sæti áfram eða þing yrði rofið og efnt til kosninga. ÓRG sagðist hafa sagt fleiri kosti í sjónmáli en þessa tvo. Viðurkenndi hann þannig óbeint að utanþingsstjórn hefði verið í spilunum. Hún var meðal annars viðruð nokkrum sinnum í leiðurum Fréttablaðsins, þótt vankunnátta höfunda leiddi til þess að þeir töluðu um „starfsstjórn“.

Sá sem spurði um utanþingsstjórnina spurði jafnframt hvort ÓRG hefði ætlað að gera Má Guðmundsson seðlabankastjóra að fjármálaráðherra. Þarna varð ÓRG dálítið órólegur á fundinum, hló við og sagði að hefði hann rætt við Má hefði hann gert hann að forsætisráðherra. Hann hefði ekki rætt slík mál við neinn.

Ætla má að ÓRG hafi orðið órótt vegna spurningarinnar um þetta vegna þess að hann vildi hvorki segja ósatt né segja of mikið um hve langt hann var kominn við að smíða utanþingsstjórnina. Hann veit sem er að margir hafa vitneskju um vilja hans til að mynda slíka stjórn. Er ekki vafi á að tilraun hans til þess leiðir til meiri varðstöðu stjórnmálamanna í samskiptum við hann, nái hann endurkjöri sem telja verður líklegt.

Í yfirlýsingu ÓRG gefur hann sér þá forsendu að „öldur mótmæla“ hafi knúið fram stjórnarskiptin í lok janúar 2009. Vissulega voru mótmæli á þessum tíma en aðrir þættir voru einnig að verki sem ástæðulaust er að láta ógetið. Innan Samfylkingarinnar töldu menn enn einu sinni að tækifæri gæfist til að láta gamlan draum vinstri manna rætast sem fyrst var orðaður á skýran hátt með hræðslubandalagi framsóknarmanna og krata fyrir kosningarnar árið 1956, að ýta íhaldinu til hliðar í íslenskum stjórnmálum.

Strax haustið 2008 höfðu menn innan raða Samfylkingar og vinstri grænna tekið að „plotta“ um leið að þessu markmiði. Eftir að SDG var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009 fékk ÓRG viðmælanda um stuðning við minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna (VG).

Stefnumið vinstri stjórnarinnar sem tók við að loknum kosningum vorið 2009 var ekki aðeins að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar heldur leiða landið inn í ESB, kollvarpa stjórnarskránni, brjóta niður kerfi við stjórn fiskveiða sem hafði skilað þjóðarbúinu ómældum tekjum og innleiða sósíalíska efnahagsstjórn með háum sköttum og aðför að þeim sem taldir voru ráða yfir auðlegð. Allt var gert til að ná þessum markmiðum, þar á meðal að afhenda ókunnum kröfuhöfum banka landsins og ganga að afarkostum við gerð Icesave-samninganna.

Þetta var leiðin sem mótuð var með rökunum „af því að hér varð hrun“. Að lokum urðu stjórnarhættir á þann veg að ÓRG taldi óhjákvæmilegt að gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti sumarið 2012.

Nú gefur ÓRG út yfirlýsingu þar sem rökin fyrir að hann gefi enn kost á sér til endurkjörs eru raun hin sömu og árið 2012 nema hann þarf að setja þau í nýjan búning því að fyrir rúmum þremur mánuðum taldi hann sér óhætt að hætta.

Í nýársávarpinu 1. janúar 2016 fór ÓRG lofsamlegum orðum um þann árangur sem náðst hefði við stjórn landsins undanfarin og sagði þjóðina í „kjörstöðu“ og einnig: „Sú margþætta óvissa sem fyrir fjórum árum leiddi til áskorana um að ég gegndi áfram embætti forseta mótar því blessunarlega ekki lengur stöðu okkar Íslendinga.“

Í yfirlýsingunni sem ÓRG las á Bessastöðum 18. apríl sagði hann að nýlega hefðu þúsundir manna safnast saman við Alþingishúsið til að krefjast afsagnar forsætisráðherra og nýrra þingkosninga. Nú fór hann ekki eins lofsamlegum orðum um þróun undanfarinna ára og sagði okkur hafa „að mörgu leyti miðað vel við lausnir á vandamálum sem sköpuðust í kjölfar bankahrunsins“. Mótmæli, afsögn forsætisráðherra og yfirlýsingar um þingkosningar næsta haust og sýndu að ástandið væri enn „viðkvæmt“ að stjórnvöld og kjörnir fulltrúar yrðu „að vanda sig“. ÓRG sagði að fjölmargir hefðu hvatt sig til að halda áfram og hefði þá iðulega „verið vísað til þess að eftir alþingiskosningar geti myndun nýrrar ríkisstjórnar reynst erfið og flókin og sambúð þings og þjóðar áfram þrungin spennu“.

Það ræðst að sjálfsögðu af úrslitum þingkosninga hvaða staða myndast eftir að atkvæði hafa verið talin. ÓRG var af Birgi Guðmundssyni fréttaskýranda í Spegli ríkisútvarpsins í kvöld lýst sem „guðföður“ núverandi ríkisstjórnar. Þessi skoðun er röng. ÓRG sat uppi með þessa ríkisstjórn eftir að Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson komu sér saman um að halda áfram stjórnarsamstarfinu. Þeir stöðvuðu áform ÓRG um utanþingsstjórn.

Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, var á sínum tíma hugmyndafræðingurinn að baki aðferðum ÓRG til að túlka stjórnarskrána í átt til forsætaræðis. Síðan hefur Svanur snúið sínu kvæði í kross og telur ÓRG hafa seilst til of mikilla valda. Nú er Svanur hugmyndafræðingur pírata og sagði á FB-síðu sinni eftir að ÓRG hafði birt tilkynningu sína í dag:

„Ólafur forseti hefur ekki fengið neinn stuðning frá mótmælahópum og ég ætla það verði gefin út yfirlýsingu gegn honum í kvöld, sameiginlegir hóparnir. Lýðræðið getur vel þrifist án hans. Krafan er kosningar strax! Þessi stjórn er í boði Ólafs, þessi stjórn hefur orðið vís af því að styðja við sölu eigna úr bönkunum bakvið luktar dyr og ætlar nú að selja bankana með gjaldþrota heimilin innanborðs á spottprís við offramboðið, til þeirra sem stálu hér öllu og ætla nú að koma með ránsfengin á tvöföldu gengi frá hruni að viðbættu 20% meðgjöf Seðlabankans - og kaupa hér upp allt sem er falt. Til hvers baðst Ólafur forseti afsökunar á þátt sínum í hruninu ef hann nú verndar þá sömu og áður á sama hátt og áður? Héðan í frá er eins víst að mótmælin munu snúast gegn honum, þvílíkur dónaskapur að bera mótmælendur fyrir sig!“

Þessi orð Svans endurspegla þá staðreynd að á 20 árum hefur kjósendahópur ÓRG breyst – hann höfðar ekki lengur til villta vinstrisins heldur sækir fylgi til miðjufólks og þeirra sem eru hægra megin við það.

Nú hljóta vangaveltur um nýja forsetaframbjóðendur að þagna og frekar verður spurt hverjir ætla að berjast við ÓRG af þeim sem þegar hafa boðið fram krafta sína. Líklegt er að þeim fækki en Svanur og fylgismenn hans munu halda ótrauðir til átaka við ÓRG. Verður Andri Snær Magnason þar í fararbroddi? Ætli ÓRG að sitja í embætti forseta jafnlengi og óvissa getur ríkt um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum mun hann sitja þar lengi enn.