2.4.2016 15:00

Laugardagur 02. 04. 16

Fimmtudag 31. mars boðaði ríkisútvarpið aukaþátt Katsljóss á morgun í samvinnu við fyrirtækið Reykjavík Media sem hefur greint gögn alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) um aflandsfé, jafnframt er gefið til kynna að þýska blaðið Süddeutsche Zeitung eigi aðild að málinu.

Í tíu daga fyrir páska reyndi fréttastofa ríkisútvarpsins árangurslaust að ná í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna fyrirframgreidds föðurarfs konu hans. Hér á síðunni hefur verið greint frá viðbrögðum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra vegna upplýsinga sem tengjast efninu sem til umræðu verður í Kastljósi.

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur sagt af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar en hann á fjölda reikninga erlendis ef marka má fréttir. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist hafa fyrir nokkrum árum stofnað í gegnum svissneskan banka persónulegan eftirlaunasjóð, sem honum hefði verið ráðlagt að skrá í Panama. Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, er sagður hafa tengst tveimur félögum á Bresku-Jómfrúareyjum.

Allt er þetta tíundað hvað eftir annað í fréttum ríkisútvarpsins öðrum þræði sem einskonar upphitun fyrir aukaþátt Kastljóss.

Sé farið inn á vefsíðu ICIJ má sjá að 16. júní 2013 hafa samtökin sett inn á vefsíðu sína það sem þau kalla Offshore Leak Database, gagnarunn sem nær til ársins 2010. Er þetta gagnagrunnurinn sem Jóhannes Kr. Kristjánsson rannsóknarblaðamaður, eigandi Reykajvik Media notar?

Á vefsíðu ICIJ segir að Jóhannes Kr. sé meðstofnandi og stjórnarmaður í Icelandic Center for Investigative Journalism, Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi sem kom til sögunnar á vordögum 2011. Að henni standa meistaranám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands og hópur rannsóknarblaðamanna og hún hefur aðsetur við Félagsvísindastofnun HÍ.

Á vefsíðu Süddeutsche Zeitung sést ekki að þar sé nú á döfinni afhjúpun á einstaklingum í skattaskjólum. Blaðið er fjarri því að vera eitthvert upphrópanablað, telst til virðulegri blaða Þýskalands. Að nefna það til sögunnar í tengslum við listaafhjúpunina í Kastljósi þjónar greinilega þeim tilgangi að ná í einhvers konar gæðastimpil.

Er ekki að efa að stjórnendur Kastljóss og Jóhannes Kr. skýri nákvæmlega frá aðferðafræði sinni, í hverju samvinnan við hina erlendu aðila fólst og hvers vegna hefur dregist svo lengi birta þessar upplýsingar hér á landi. Lúta þær einkarétti Reykjavik Media? Kaupir Kastljós upplýsingarnar? Fyrir hvaða verð?