5.4.2016 20:15

Þriðjudagur 05. 04. 16

 

Sögulegur dagur er á enda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) segir af sér á þingflokksfundi framsóknarmanna. Stjórnmálaskýrendur höfðu sagt að framtíð hans og stjórnarinnar væri undir sjálfstæðismönnum komin. Hún reyndist ráðast í hans eigin þingflokki eftir fundi hans með Bjarna Benediktssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni (ÓRG) fyrr um daginn.

Eftir fundinn með Bjarna sem haldinn var í morgun eftir heimkomu Bjarna frá Bandaríkjunum sagði SDG á FB-síðu sinni:

„Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“

Þetta birtist áður en SDG fór á Bessastaði. Eftir fundinn þar sagði ÓRG „að er­indi Sig­mund­ar Davíðs hefði verið að kanna af­stöðu hans og óska eft­ir því að hann veitti hon­um heim­ild til að rjúfa þing nú eða síðar,“ eins og segir á mbl.is og einnig: 

„Með Sig­mundi Davíð voru emb­ætt­is­menn for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins sem höfðu bréf meðferðis sem óskað var eft­ir að for­seti und­ir­ritaði. 

Ólaf­ur Ragn­ar sagði að þeir Sig­mund­ur hefðu rætt málið nokkuð lengi og að hann hefði út­skýrt af­stöðu sína. „For­seti hlýt­ur að meta hvort stuðning­ur sé við þá ósk hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um og hvort lík­legt sé að þingrof leiði til far­sæll­ar­ar niður­stöðu, bæði fyr­ir þjóðina og stjórn­ar­farið í land­inu,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar.“

Á meðan SDG var í þessum leiðangri létu þingmenn Framsóknarflokksins í ljós óánægju með að hann hefði ekki kynnt þeim hugmyndina um þingrof. Á þingflokksfundinum sagði SDG sig síðan frá forsætisráðherraembættinu.

Þeir deila síðan ÓRG og SDG um hvort SDG hafi lagt fram tilögu um þingrof. ÓRG segir það ótvírætt vegna embættismannanna sem fylgdu SDG sem hafi auk þess verið með „ríkisráðstöskuna“ eins og ÓRG sagði í kvöldfréttum sjónvarps. Þarna er kominn nýr gerandi í stórpólitíkinni, ríkisráðstakan.

Fyrir SDG vakti greinilega að fá ÓRG til að samþykkja skjal sem SDG gæti síðan notað sem svipu á Sjálfstæðisflokkinn, ógnarhótun um þingrof og kosningar eða í samningum við aðra flokka sem hafa meiri ástæðu til að óttast kosningar en Sjálfstæðisflokkurinn.

Nú eru hafnar viðræður milli Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar um myndun nýs ráðuneytis. Stjórnarandstaðan situr eftir með sárt enni og stóryrðaflaum, einkum Árni Páll sem berst fyrir eigin pólitísku lífi í Samfylkingunni,