23.4.2016 17:10

Laugardagur 23. 04. 16

Í bókinni Útistöður talar Margrét Tryggvadóttir, fyrrv. þingmaður Hreyfingarinnar, um Birgittuvesenið, þar er sérkennilega framgöngu Birgittu Jónsdóttur, þáverandi flokks- og þingsystur sinnar, þegar dró að þinglokum. Hér skal ekki lýst hvernig vesenið birtist Margréti en það blasir nú við þeim sem fylgjast með framgöngu Birgittu þessar vorvikur.

Í gær sat hún fundi í Stjórnarráðshúsinu með forsætisráðherra og fjármálaráðherra, oddvitum ríkisstjórnarinnar, um framgang þingmála. Eftir fundinn sagði hún við ríkisfréttastofuna að fundurinn hafi verið „tilgangslaus“. Hún væri „minna upplýst“ eftir fundinn um kjördag og forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

„Það var ekkert samráð á þessum fundi, enda ekki hægt að vera með samráð um eitthvað sem maður veit ekki hvað er,“ sagði Birgitta og afhjúpaði tilgangsleysi þess að boða hana til fundar um slík alvörumál.

Á sínum tíma framlengdi Birgitta líf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur af því að hún taldi sér trú um og hélt því að öðrum að ríkisstjórnin mundi ná einhverjum árangri. Það reyndist allt rangt mat hjá Birgittu. Nú er hún í stjórnarandstöðu og þykist ekki vita neitt um efni mála sem henni eru kynnt. Vesenið birtist í ýmsum myndum og magnast þegar nær dregur þinglokum.

Það sýnir afskiptapólitík Birgittu og virðingarleysi fyrir eðlilegum stjórnsýsluháttum að í þingræðu miðvikudaginn 20. apríl taldi hún eðlilegt að menntamálaráðherra veitti sérstaklega fé til Kastljóss ríkisútvarpsins til að stjórnendur þáttarins gætu keypt fleiri þætti um Panama-skjölin.

Nú segja fjölmiðlamenn að Donald Trump sem keppir að forsetaframboði fyrir bandaríska repúblíkana hafi breytt um stíl til að milda eigin ímynd. Þegar hann fagnaði sigri í prófkjöri í New York að kvöldi þriðjudags 19. apríl hélt hann sig við skrifaðan ræðutexta. Sérstaklega var eftir því tekið að hann sagði ekki lengur lyin‘Ted (Ted lygari) þegar hann minntist á keppinaut sinn Ted Cruz heldur var formlegri og sagði senator Ted Cruz.

Stjórnarandstaðan hér hefur minnt verulega á Donald Trump undanfarnar vikur. Þar hefur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gjarnan gefið tóninn með svigurmælum um stjórnarflokkana og forystumenn þeirra. Skoðanakannanir sýna að þetta hefur ekki skilað Samfylkingunni neinu fylgi, þvert á móti hefur það minnkað. Nú hefur Árni Páll skipt um gír eins og Trump. Hvað gerir Birgitta?