Fimmtudagur 14. 04. 16
Í dag hélt G. Jökull Gíslason lögregluþjónn fróðlegan fyrirlestur á vegum Varðbergs um jarðveg óeirða og byltinga. Hann brá í senn ljósi á það sem gerst hefur í fortíð og það við blasir í nútíð. Þótt okkur finnist nóg um fréttir af átökum sýna rannsóknir að við lifum friðsama og blómlega tíma í sögulegu ljósi. Eins og ávallt eru þó váboðar. Stóra spurningin er hvort loftslagsbreytingar raska svo jafnvægi að breyting verði á lífsviðurværi milljóna manna. Matarskortur skapar besta jarðveginn fyrir óeirðir og byltingar.
Nokkra athygli vakti á dögunum þegar Birgitta Jónssdóttir, leiðtogi pírata, sagði hlutverk formanns framkvæmdaráðs pírata vera að sjá til þess að flokksskrifstofan væri þrifin. Um umhirðu skriifstofunnar urðu nokkrar umræður í framkvæmdaráðinu 24. mars 2016 og segir í fundargerðinni sem birt er á netinu að til sögunnar komi innanhúsnefnd sem hafi þetta hlutverk:
„Tortuga er í senn samkomu- og fundarstaður fjölda Pírata og þess vegna mikilvægt að húsnæðið sé ávalt snyrtilegt og í góðu ásigkomulagi. Nauðsynlegt þykir að stofna formlegan hóp sem mun hafa það markmið að gera Tortuga betra fyrir þá sem koma þangað, og viðhalda ástandi þess sem og útliti. Hópurinn mun koma að útliti, stíl, hreinlætismálum og hafa eftirlit með almennum rekstri með umboði frá Framkvæmdaráði. Útlit rýmisins og stöðlun verkferla verður í sérstökum brennidepli.“
Þessa samþykkt notar Birgitta síðan til að koma höggi á formann framkvæmdaráðsins. Það er sama hvar borið er niður, píratar bera alls staðar nafn með rentu. Hvergi er friðsamlegt í kringum þá.