18.4.2016 12:00

Mánudagur 18. 04. 16

Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að gefa kost á sér til endurkjörs skrifaði ég pistil hér á síðuna. Sjá hér.

Áhorf á sjónvarpsfréttir minnkar jafnt og þétt nema þegar fólk veit eftir öðrum leiðum að eitthvað markvert sé að gerast. Ástæðan fyrir þessu er einföld: það virðist ekkert í fréttum og tíminn sem ætlaður er fyrir þær snýst um eitthvað sem er „plöggað“ eins og sagt er á lélegu máli, eitthvað sem er haldið að fréttmönnum af almannatenglum.

Ég hætti að horfa á fréttir Stöðvar 2 fyrir nokkrum árum og hef ekki misst af neinu, stundum horfi ég ríkissjónvarpsfréttirnar kl. 22.00. Ástæðan fyrir eigin áhugaleysi var enn einu sinni staðfest í morgun við lestur hins ágæta daglega pistils Eiðs Svanbergs Guðnasonar um málfar og efnistök í fjölmiðlum. Þar stóð:

 „KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM

Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, – ekki fréttir , – heldur oft einhver kjánagangur.

Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.

Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun?  Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin” birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga.  Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.“

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, ritar grein í Morgunblaðiðí morgun þar sem hann bendir á dæmalausar rangfærslur í langhundi sem Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttatímans, skrifaði í blað sitt í síðustu viku til að rægja Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen fyrir störf þeirra sem fjármálaráðherrar.

Undarleg heift knýr menn til að taka saman efni á borð við það sem Gunnar Smári birti og er að megingrunni til staðlausir stafir. Raunar hefði langhundurinn líklega aldrei birst í blaði undir ritstjórn annars manns en Gunnars Smára sjálfs. Ritstjórar vandir að eigin virðingu og með virðingu fyrir lesendum hefðu aldrei hleypt jafn óvönduðum texta fram hjá sér.

Fjársterkir aðilar standa að útgáfu Fréttatímans sem sækir tekjur til auglýsenda. Gunnar Smári kom Fréttablaðinu í hendur Baugsmanna á sínum tíma en reyndist þeim að lokum dýrkeyptur í orðsins fyllstu merkingu eftir misheppnaða útrás til Danmerkur, Bretlands og Bandaríkjanna.