Sunnudagur 17. 04. 16
Anne Applebaum er dálkahöfundur hjá Washington Post, höfundur bóka um kommúnismann í Evrópu og sovéska Gúlagið, sérfróð um samtímasögu og þróun alþjóðamála. Nýlega birtist við hana viðtal á vefsíðu The Slovak Spectator. Þar var hún meðal annars spurð hvor hún teldi Panama-skjölin geta breytt evrópskum stjórnmálum á einhvern hátt. Hún svaraði:
„Til þessa hefur ekkert komið fram í Panama-skjölunum sem kemur mér á óvart. Ég vissi hvernig þetta gekk fyrir sig, ég vissi að Rússar geyma fé sitt utan Rússlands. Þessir aflandsbankar eru allir löglegir. Eigi maður til dæmis almennan bankareikning í venjulegum banka í Bretlandi og fari í bankann og segist gjarnan vilja eiga reikning í evrum fær maður það svar að þeir geti ekki stofnað fyrir þig evru-reikning í Bretlandi en þeir geti stofnað evru-reikning utan Bretlands, í aflandsbanka. Þetta er hvorki ólöglegt né undarlegt, bankakerfið starfar svona. Ábyrgð Breta er sérstaklega mikil vegna þess að margir bankar eru á bresku svæði. Ég tel að svarið felist í að loka þessu aflandskerfi, gera það ólöglegt og þá hættir fólk að nota það. Þetta er frekar einföld lausn og hún kæmi öllum til góða.“
Blaðamaðurinn spyr þá hvort unnt sé að loka þessu kerfi þegar sum skjólin séu í Bretlandi, Kýpur. Sum einfaldlega innan ESB.
Anne Applebaum svarar:
„Evrópusambandið getur lokað þeim til dæmis í Bretlandi, Lúxemborg, Kýpur og sagt að það sé ólöglegt að eiga peninga í þeim séu menn evrópskir ríkisborgarar.“
Evrópusambandið lokar þessu kerfi ekki af því að svo margir hafa hag af því að það sé við lýði. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, átti ríkan þátt í að hanna kerfið í Lúxemborg sem víða hefur sætt ámæli. Að hann beiti sér fyrir grundvallarbreytingu á þessu kerfi er af og frá. Hann svarar gagnrýnendum þess fullum hálsi.
Sanngjörn skattlagning er helsti óvinur útflutnings á fjármunum. Þegar sósíalistar í Frakklandi lögðu 75% skatt á stóreignamenn fluttu þeir einfaldlega úr landi. Auðlegðarskattur Jóhönnu og Steingríms J. ýttu undir flutning fjár úr landi.
Allt er þetta vitað og öllum ljóst. Hvers vegna hefur það verið liðið hér að atvinnurekendur geta komist upp með að greiða 0,45% tryggingargjald í stað 7% með því að nýta sér einhverja glufu. Hver hefur hag af að viðhalda þessari glufu? Óþarfi er að leita út fyrir landsteinana til kynnast einhverju sem mismunar þegar skattkerfið er skoðað.