Föstudagur 22. 04. 16
Viðtal mitt við Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing Samtaka atvinnulífsins, á ÍNN miðvikudaginn 20. apríl er komið á netið og má sjá það hér. Við tókum það upp og frumsýndum daginn áður en forsíðufrétt birtist um sama efni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Besta staða frá stríðslokum, þar er vísað til stöðunnar í íslenskum efnahagsmálum.
Hefst fréttin á því að sérfræðingar telji líklegt „að eftir tvö til þrjú ár verði erlend staða þjóðarbúsins orðin jákvæð“. Þetta þýðir að eftir tvö eða þrjú ár eigi íslenska þjóðarbúið inneign í útlöndum í stað þess að vera þjakað af erlendum skuldum sem námu 130% af vergri landsframleiðslu í árslok 2008. Nú um þessar mundir er þessi tala 14%. Þetta eru söguleg umskipti til hins betra og er merkilegt að um þau sé ekki talað í fréttum á sama hátt og alið var á svartsýni og úlfúð þegar syrti í álinn við hrun bankakerfisins.
Seðlabanki Íslands hefur mótað hávaxtastefnu í peningamálum til að sporna við hættu á verðbólgu. Kaupmáttur eykst hins vegar um 11,6% milli ára án þess að verð bólgni. Vaxtastefnan kallar hins vegar að nýju á erlenda fjárfesta sem vilja hagnast á vaxtamuninum hér á landi, fjárfesta í vöxtunum með kaupum á skuldabréfum. Þetta leiddi til svonefndrar „snjóhengju“ á árunum fyrir hrun. Hefur ekki enn tekist að losna við hana.
Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, segir í Morgunblaðinu 21. apríl, engin merki um áhættu vegna mikils innflæðis gjaldeyris í landið. Þetta sé ekki innflæði vegna fjárfestingar, sem geti falið í sér áhættu, líkt og gerðist fyrir hrunið. Í samtalinu segir hún þó að seðlabankinn þurfi ný tæki til að takast á við þetta innflæði, til dæmis heimild til að skattleggja þá sem fjárfesti hér til skamms tíma. Einnig minnist hún á bindisskyldu, það er að bankar verði skyldaðir til að halda aftur af útlánum.
Um þetta fjöllum við Ásdís undir lok samtalsins. Ég skil Ásdísi þannig að um þessar mundir telji hún brýnast að finna leiðir til að varna því að hér verði til ný snjóhengja, það er stemma stigu við að erlendir fjárfestar komi hingað til að festa fé í vaxtamun.
Augljóst er að tímabært er að skipta um gír í umræðunum um íslensk efnahagsmál, hvað sem öðru líður. Við núverandi aðstæður er ástæðulaust að sitja fastur í svartnætti umræðna undanfarinna ára.
Gleðilegt sumar!