Laugardagur 16. 04. 16
Í dag var tilkynnt að Íslandsbanki mundi flytja höfuðstöðvar sínar frá Kirkjusandi í Norðurturninn svonefnda í Kópavogi. Í frétt mbl.is segir að.höfuðstöðvarnar hafi verið á Kirkjusandi í 20 ár. Þær séu þó í raun á fjórum stöðum og sameinist nú með 650 starfsmönnum. Mikil hagkvæmni fylgi sameiningunni þar sem samanlagður fermetrafjöldi höfuðstöðvastarfsemi minnki úr 13.900 í 8.600 fermetra í Norðurturninum. Rakaskemmdir hafi fundist í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi og ljóst sé að fara þurfi í töluverðar endurbætur á húsnæðinu..
Íslandsbanki er í eigu íslenska ríkisins og nú er spurning hvort forráðamenn þess eða alþingismenn muni reka upp ramakvein eins og gert var fyrir skömmu þegar enn einu sinni var vakið máls á því að hinn ríkisbankinn Landsbanki Íslands vildi reisa nýjar höfuðstöðvar í Austurhöfninni, skammt frá Hörpu.
Í frétt á mbl.is föstudaginn 15. apríl segir að eftir nýja athugun sé það enn niðurstaða bankaráðs Landsbankans að besti kosturinn til að leysa húsnæðisvanda bankans sé að flytja í nýja byggingu í Austurhöfn. Ráðgjafar hafi yfirfarið fyrri útreikninga bankaráðs og þetta sé einnig niðurstaða þeirra.
Fráfarandi formaður bankaráðsins, Tryggvi Pálsson, sagði á aðalfundi Landsbankans 14. apríl að lokaorðið um hvort bankinn hæfist handa við að reisa nýjar höfuðstöðvar væri hjá stærsta hluthafanum, íslenska ríkinu. Bankaráðið hefði fjallað um nýjar höfuðstöðvar allt frá árinu 2010 og hagkvæmast væri fyrir Landsbankann að þær yrðu í Austurhöfninni.
Niðurstaða athugana bankaráðsins er að spara megi hundruð milljóna á hverju ári með flutningi í nýja byggingu og að Austurhöfnin sé besti kosturinn. Lóðin sé á góðum stað, skipulag liggi fyrir og hægt sé að hefja framkvæmdir. Vinnuaðstaða batni til muna, mikil fækkun verði á fermetrum undir starfsemina sem lækki rekstrarkostnað um verulegar fjárhæðir.
Meðal þeirra sem snerust af mestum þunga gegn áformum stjórnenda Landsbankans um nýjar höfuðstöðvar var Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og atvinnumálanefndar alþingis. Nú er spurning hvort hann samþykkir að Íslandsbanki flytji í Kópavoginn úr því að hann vill ekki að Landsbankinn flytji sig um set. Hvað ræður afstöðu Frosta, að bankinn reisi sjálfur höfuðstöðvar sínar?
Hver skyldi stefna meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur vera? Fyrirtæki í sambærilegum rekstri sjá gjarnan hagkvæmni í að mynda klasa bygginga. Landsbankinn kann að hugsa sér til hreyfings í nýtt fjármálahverfi í Kópavogi verði hann neyddur til að búa við erfiðar aðstæður í miðborg Reykjavíkur.
.