20.4.2016 16:00

Miðvikudagur 20. 04. 16

Í dag ræði ég við Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing Samtaka atvinnulífsins, í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum um stöðu íslenskra efnahagsmála. Það er með ólíkindum að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn haldi því ekki betur til haga gagnvart almenningi hve þjóðarbúskapurinn er á góðu róli, hinu besta frá því nútímalegar mælingar á stöðu þjóðarbúsins hófust.

Umsnúningurinn sem orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar í efnahagsmálum er með ólíkindum. Þar ráða samningarnir við kröfuhafana úrslitum að lokum. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru aðeins 14% og stefnir í að um eign verði að ræða frekar en skuld gagnvart útlöndum.

Í dag birti Hagstofa Íslands tölur sem sýna að síðastliðna tólf mánuði hafi launavísitalan hækkað um 13,3% og kaupmáttur launa um 11,6%. Að þetta gerist án þess að verðbólgu verði vart er einstakt.

Fyrir nokkrum mánuðum einkenndust fréttir af hrakspám vegna yfirvofandi kjarasamninga og alið var á kvíða og hræðslu vegna þeirra. Ekkert af þessum spám hefur ræst og er það enn fjöður í hatt stjórnvalda að hafa ekki hrakist af leið vegna þessa.

Að sjálfsögðu er það flokkum sem hafa gjörólíka stefnu í efnahagsmálum og stjórnarflokkarnir kappsmál að þegja þunnu hljóði um velgengnina þegar stefnu stjórnarflokkanna er fylgt. Vilja andstæðingar ríkisstjórnarinnar drepa umræðum um alvörumál á dreif með árásum á menn. Að láta þá komast upp með það sýnir að öxull er brotinn í áróðursvél stjórnarflokkanna og þeir hafa ekki burði til að stýra umræðunum.

Á árunum 2005 til 2007 streymdu erlendir peningar inn í landið þar sem útlendingar í leit að háum vöxtum fyrir fé sitt keyptu íslensk skuldabréf. Úr þessu varð „snjóhengjan“ svonefnda. Eftir að samið hefur verið við kröfuhafa er næsta skref að komast sem best undan henni og bræða hana. Skref hafa verið stigin í þá átt en á sama tíma má greina þá þróun frá miðju ári 2015 að ný „snjóhengja“ sé að myndast vegna hinna háu vaxta hér – þeir eru aðeins hærri í tveimur samanburðarríkjum: Brasilíu og Kína.

Spurning er hvers vegna Seðlabanki Íslands haldi svo fast í hávaxtastefnuna í stað þess til dæmis að taka upp bindisskyldu til að takmarka fé í umferð. Er það vegna íhaldssemi? Jón Daníelsson hagfræðingur mælti með því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins að frekar yrði hugað að bindisskyldu en hávaxtastefnu.

Um allt þetta má fræðast á ÍNN klukkan 20.00 í kvöld.