27.4.2016 18:15

Miðvikudagur 27. 04. 16

Í dag ræddi ég við Sigurjón Einarsson náttúruljósmyndara og Guðrúnu Jónsdóttur, forstöðukonu Safnahúss Borgarfjarðar, í þætti mínum á ÍNN. Hann er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Furðulegt er að nokkrum á fréttastofu ríkisútvarpsins skuli hafa dottið í hug að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra yrði formaður félags sem stofnað er með lögum til að annast umsýslu og fullnustu svonefndra „stöðugleikaeigna“. Þetta eru eignir sem falla ríkinu í skaut vegna uppgjörsins við kröfuhafana og er Íslandsbanki meðal þeirra.

Ríkisútvarpið tilnefndi fjármálaráðherra ranglega formann þessarar stjórnar í fréttum þriðjudaginn 26. apríl en baðst síðan afsökunar á rangherminu miðvikudaginn 27. apríl.

Eitt er að ríkisútvarpið vaði villu og reyk í þessu máli. Þeir sem skrifa á vefsíðuna Stundina eltu ríkisfréttamennina eins og í blindni. Þar slógu menn því upp í hneykslunartóni sem aðalfrétt að fjármálaráðherra yrði stjórnarformaður í félaginu þótt gert væri ráð fyrir öðru í áliti þingnefndar. Hlakkaði greinilega í þeim sem að frétt Stundarinnar stóð, nú fengi hann enn nýtt tilefni til að veitast að fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson fjallaði um málið á FB-síðu sinni og sagði meðal annars:

„…vonandi læra einhverjir af þessu að éta ekki umhugsunarlaust upp eftir öðrum (þmt RÚV) og kveða í beinu framhaldi upp dóma. Ég sé að þetta hafa þónokkuð margir gert. Það sem fengist með því væri nefninlega eftirsóknarvert fyrir okkur öll. Betra samfélag.“

Þessi athugasemd ráðherrans fór fyrir brjóstið á Nönnu Elísu Jakobsdóttur á Fréttablaðinu sem skammaði ráðherrann og ráðuneyti hans á FB-síðu sinni fyrir „að leyfa mistökum fréttamanns á RÚV í gær að lifa frá gærkvöldi og inn í daginn í dag í staðinn fyrir að leiðrétta málið“. Þetta er í raun ótrúlegt viðhorf og til marks um hjarðeðli í hópi fjölmiðlamanna.

Er það orðið á ábyrgð ráðuneyta að koma í veg fyrir að fjölmiðlamenn endurtaki vitleysur hver annars í stað þess að leita sjálfstætt staðfestingar á því hvort frétt sé rétt?

Forvitnilegast í þessu máli era að vita hvernig í ósköpunum nokkrum á ríkisfréttastofunni datt þessi vitleysa í hug og setti hana í loftið án þess að leita staðfestingar heimildarmanna. Nanna Elís snýr hlutunum á hvolf með því að breyta vitleysu ríkisútvarpsins í vandamál fjármálaráðuneytisins.