Föstudagur 01. 04. 16
Það renna nú tvær grímur á forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig þeir ætla að taka á aflandsreikningamálinu á alþingi. Fyrr í vikunni rauk Birgitta Jónsdóttir pírati út af fundi stjórnarandstöðuleiðtoganna til að verða fyrst með þá frétt að þeir vildu að alþingi ákvæði að rjúfa sjálft sig og efnt yrði til kosninga. Í dag komu leiðtogarnir aftur saman til fundar og eftir hann birtist þessi fyrirsögn á mbl.is:
Allt opið varðandi þingsályktunartillögu um þingrof eða vantraust
og síðan:
„Aðspurður hvort stjórnarandstaðan áformi enn að leggja fram þingsályktunartillögu um þingrof í stað vantrauststillögu segir Árni [Páll Árnsason samfylkingarformaður] að allt sé opið í þeim efnum. „Við munum ákveða á mánudaginn hvernig við háttum því,“ segir hann og bætir við að niðurstaðan muni fara eftir rannsóknum og sérfræðiráðgjöf síðustu daga og um helgina. […] „Við munum velta hverjum steini við, málið er það alvarlegt,“ segir Árni að lokum.
Á ruv.is segir í dag:
„Birgitta [leiðtogi pírata] segir stjórnarandstöðuna einhuga um að þetta mál megi ekki falla í gleymskunnar dá. „Það má ekki gleyma því hversu alvarlegt þetta mál er - forsætisráðherra kýs að láta ekki vita af því að hann sat beggja vegna borðsins.““
Flytji stjórnarandstaða vantraust á ríkisstjórn lætur hún gjarnan fylgja í tillögunni að verði húni samþykkt skuli rjúfa þing og boða til kosninga ákveðinn dag. Þetta er hin rétta þingræðislega aðferð. Þá má einnig flytja tillögu um að skora á forsætisráðherra að rjúfa þing eða lýsa yfir vilja alþingis um að það verði gert en að þingið rjúfi sig sjálfs stenst ekki.
Augljóst er af orðum Árna Páls að hann áttar sig á að frumhlaup Birgittu um þingrofið er engum til framdráttar. Henni er nú efst í huga að enginn gleymi alvarleika málsins.
Fréttastofa ríkisútvarpsins leggur sitt af mörkum til að ekkert gleymist og hefur nú boðað sérstakan sunnudagsþátt af Kastljósi. Boðun hans þjónar meðal annars þeim tilgangi að geta í tíma og ótíma tönnlast á að nöfn þriggja ráðherra séu á lista sem gefið er til kynna að tengist lögbrotum eða óeðlilegri meðferð á fjármunum. Á sama tíma og þetta kynningarstarf er stundað helgar Kastljósið sig hatursumræðu til varnar frambjóðanda til varaformennsku í Samfylkingunni.