9.4.2016 19:30

Laugardagur 09. 04. 16

Skýring Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á tillögu sinni um þingrof til forseta Íslands eins og hann birtir hana í Morgunblaðinu í dag hljómar sérkennilega svo að ekki sé meira sagt. Ég tók saman fjóra punkta sem tengjast afsögn Sigmundar Davíðs og setti sem pistil hér á síðuna.

Þetta varð lengra mál en ég ætlaði og hætti samantektinni áður en lengra var haldið. Fréttir ríkisútvarpsins í tengslum við þetta eru núna ótrúlega óspennandi, útlistanir á einhverjum skoðanakönnunum og frásagnir af því hvað margir leggja leið sína á Austurvöll til að mótmæla. Þetta er einhvers konar fleyting á yfirborðinu og tog um kjördag fyrr eða síðar.

Stjórnarflokkarnir sýndu mun meiri samstöðu og innri styrk þegar þeir stóðu í storminum en ætla hefði mátt miðað við að tætingsbragur hefur verið að færast yfir samstarf þeirra undanfarnar vikur. Þar ræður mestu öryggið sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson sýndu á þessari úrslitastundu.

Það er allt annað svipmót á stjórnarflokkunum en stjórnarandstöðuflokkunum. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. formaður Alþýðuflokksins, líkir Samfylkingunni við „sökkvandi fley“ sem stjórnendur hennar hafi gert „bæði vélarvana og hriplekt“ í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann lýkur grein sinni á þessum viðvörunarorðum:

„Ef áfram verður haldið í undirbúningi undir ykkar eigin átök við ykkar eigin félaga með það eitt að markmiði að koma sem allra fyrst frá formanni, sem síðast var kosinn fyrir atbeina allra flokksmanna til þess eins að fá svo sjálf að setjast undir stýrissveifina á sökkvandi skipi, þá munuð þið gera það án stuðnings mjög margra þeirra, sem skópu þennan flokk. Þar á meðal án stuðnings þess, sem þetta ritar. Þá verðum við, þeir sem eftir eru, að leita að öðrum og betri kosti.

Er þetta nógu skýrt? Er ykkur þetta skiljanlegt?“

Við hlið þessa flokks, Samfylkingarinnar, sem talinn hefur verið forystuflokkur stjórnarandstöðunnar eru tveir stærri flokkar nú samkvæmt mælingum: píratar án stefnu og vinstri grænir, innbyrðis sundurþykkir vegna svika við stefnumálin á síðasta kjörtímabili – þar er flokkur án uppgjörs sem margklofnaði þegar hann átti aðild að ríkisstjórn.