9.4.2016

Sviptingar vegna afsagnar Sigmundar Davíðs

Hér tek ég saman fjóra þætti atburðarásar síðustu daga sem vert er að halda til haga:

1.    Með ólíkindum er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) skyldi þegjandi láta það yfir sig ganga að vera blekktur til sjónvarpsviðtals  föstudaginn 11. mars vegna útsendingar 3. apríl og þegja allan tímann um hvernig laumast var að honum til þess eins að hrekja hann á brott í upptöku til útsendingar. Í Morgunblaðinu 9. apríl er SDG spurður hvers vegna viðbrögð hans við umræddu viðtali hafi ekki verið afdráttarlausari. Segir Sigmundur Davíð „að hann hafi ekki viljað gera sjónvarpsmönnum sem beittu slíkum aðferðum svo hátt undir höfði. Sjónvarpsmennirnir hafi blekkt hann í viðtal á fölskum forsendum, sent falskar spurningar fyrirfram, og „á allan hátt staðið að málum á þann hátt að gera óskiljanlegt hvert verið væri að fara þegar allt í einu var farið að ræða persónuleg málefni hans“. Hann hafi samtímis áttað sig á að „öll framganga sjónvarpsmannanna hefði verið blekking og að tilgangurinn væri að hanka hann á einhverju“. Þá hafi komið fát á hann, enda hafi hann verið algjörlega ruglaður í ríminu og á sama tíma að átta sig á því að allar forsendur viðtalsins hefðu verið blekking og verið væri að fiska eftir einhverju. Svo hafi orðið ljóst að sjónvarpsmennirnir gerðu ráð fyrir að hann hefði verið að fela eignir fyrir skattinum,“ segir í viðtali Baldurs Arnarsonar blaðamanns við SDG. „Gera svo hátt undir höfði“ segir SDG. Það eru einkennileg rök manns sem hrakinn hefur verið úr embætti af fréttamönnum sem þaulæfðu samtalið, höfðu með sér handrit af því sem mundi gerast og sáu til þess að þrjár sjónvarpsmyndavélar væru á staðnum til að ná mætti mynd af útgöngu ráðherrans. SDG segir einnig í þessu viðtali við Morgunblaðið:

„Ég var reyndar búinn að skrifa samantekt um hvernig þetta allt hefði borið að, þetta viðtal, en tók svo ákvörðun um að vera ekki að lyfta þessari framgöngu með því að gera hana að umtalsefni að fyrra bragði. Ég trúði ekki að menn myndu ganga svo langt að nýta sér það atriði sem þarna hafði verið búið til, þegar búið væri að skýra að forsendurnar fyrir því að gengið var fram með þessum hætti væru ekki réttar. Það er að segja að þegar búið væri að skýra að sú ályktun sjónvarpsmannanna væri röng að þetta væri leynifélag sem ekki hefði verið gefið upp til skatts.“

Sigmundur Davíð segir aðstoðarmann sinn hafa sent sjónvarpsmönnunum upplýsingar um umrætt félag, Wintris [í eigu eiginkonu SDG], í trausti þess að þær kæmu fram í umfjölluninni. Hann fullyrðir að sjónvarpsmennirnir hafi rætt við fleiri aðila, þar með talið í Lúxemborg, en tekið því illa þegar veittar voru upplýsingar sem studdu skýringar hans og eiginkonu hans en rímuðu ekki við þá mynd sem dregin var upp í þættinum. Blaðamaður [Morgunblaðsins] ræddi við sérfræðing í erlendri fjármálamiðstöð, sem sjónvarpsfólk á RÚV ræddi við, sem sagði það ekki hafa haft áhuga á upplýsingum sem ekki studdu þeirra nálgun að málefninu.“

2.    Mánudaginn 4. apríl, daginn eftir útsendingu á viðtalinu við SDG í Kastljósi baðs hann afsökunar á framgöngu sinni í þættinum. Það var hins vegar gagnslaus tilraun til að berja í brestina. Hvað sem leið eignahaldi eiginkonunnar á fjármunum erlendis og lögmæti þess hafði SDG verið særður á þann hátt að dagar hans sem forsætisráðherra voru taldir. Ég sagði hér á síðunni:

„Af erlendum fjölmiðlum má ráða að sjónvarpsviðtalið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra veitti í Ráðherrabústaðnum 11. mars veldur honum álitshnekki víðar en á  Íslandi. Hann hefur beðist afsökunar á framgöngu sinni. Kann það að róa stuðningsmenn hans á heimavelli en breytir litlu ef nokkru út á við. Er þetta mjög miður ekki síst í ljósi þess að Sigmundur Davíð hefur gengið fram sem stjórnmálamaður með heiður lands og þjóðar að leiðarljósi á alþjóðavettvangi. Eftir einn sjónvarpsþátt snýst það í andhverfu sína. Ótrúlegt en satt.“

Bjarni Benediktsson ætlaði að koma heim frá Flórída úr páskaleyfi þennan mánudag enda kom alþingi þá saman til fyrsta fundar eftir páskahlé. Bjarni missti af vélinni vegna seinkunar á tengiflugi en tók þátt í fundi þingflokks sjálfstæðismanna með fjarfundarbúnaði. Þingmenn sögðust bundnir þagnareiði. Síðdegis var gerð hörð hríð að SDG í alþingi og fjöldi manna kom saman á Austurvelli til að mótmæla SDG og ríkisstjórninni og krefjast kosninga. Skipuleggjendur töluðu um 23.000 manns aðrir sögðu að 8.000 til 9.000 manns hefðu komið saman.

Bjarni kom heim að morgni þriðjudags 5. apríl og einnig Ólafur Ragnar Grímsson (ÓRG) forseti Íslands. Bjarni og SDG hittust eftir heimkomu Bjarna. Eftir fundinn setti SDG frásögn af honum á FB-síðu sína. Þar sagði hann meðal annars:

„Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“

Þetta birtist áður en SDG fór á Bessastaði. Eftir fundinn þar sagði ÓRG „að er­indi Sig­mund­ar Davíðs hefði verið að kanna af­stöðu hans og óska eft­ir því að hann veitti hon­um heim­ild til að rjúfa þing nú eða síðar,“ eins og segir ámbl.is og einnig: 

„Með Sig­mundi Davíð voru emb­ætt­is­menn for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins sem höfðu bréf meðferðis sem óskað var eft­ir að for­seti und­ir­ritaði. 

Ólaf­ur Ragn­ar sagði að þeir Sig­mund­ur hefðu rætt málið nokkuð lengi og að hann hefði út­skýrt af­stöðu sína. „For­seti hlýt­ur að meta hvort stuðning­ur sé við þá ósk hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um og hvort lík­legt sé að þingrof leiði til far­sæll­ar­ar niður­stöðu, bæði fyr­ir þjóðina og stjórn­ar­farið í land­inu,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar.“

Á meðan SDG var í þessum leiðangri létu þingmenn Framsóknarflokksins í ljós óánægju með að hann hefði ekki kynnt þeim hugmyndina um þingrof.

Þeir deildu síðan ÓRG og SDG um hvort SDG hefði lagt fram tillögu um þingrof. ÓRG segir það ótvírætt vegna embættismannanna sem fylgdu SDG sem hafi auk þess verið með „ríkisráðstöskuna“ eins og ÓRG sagði í kvöldfréttum sjónvarps. Þarna kom nýr gerandi í stórpólitíkinni, ríkisráðstakan.

Ég taldi að fyrir SDG greinilega vakað að fá ÓRG til að samþykkja skjal sem SDG gæti síðan notað sem svipu á Sjálfstæðisflokkinn, ógnarhótun um þingrof og kosningar eða í samningum við aðra flokka sem hefðu meiri ástæðu til að óttast kosningar en Sjálfstæðisflokkurinn.

Í samtalinu við Baldur Arnarson sem birtist laugardaginn 9. apríl segir SDG:

„Formaður Sjálfstæðisflokksins hafði verið erlendis um alllangt skeið meðan á öllu þessu stóð, hafði ekki komist til landsins á tilsettum tíma. Við höfðum ráðgert að hittast um leið og hann kæmi. Í millitíðinni, á meðan hann var erlendis, hafði ég auðvitað fylgst mjög náið með gangi mála í stjórnarliðinu, og ekki hvað síst gætt þess að fylgjast með því hvernig hlutirnir væru að þróast í Sjálfstæðisflokknum, eftir þeim leiðum sem maður hefur til þess.

Ég hafði líka orðið þess áskynja að í opinberum yfirlýsingum höfðu þingmenn flokksins og formaður ekki verið eins afdráttarlausir og vera ber í aðdraganda tillögu um vantraust og þingrof. Af því leiddi að ég mat það sem svo að það væri nauðsynlegt að gera mönnum grein fyrir því sem að mínu mati á ekki að þurfa að gera mönnum grein fyrir – og á að teljast sjálfsagður hlutur – að ef að þingmenn stjórnarliðs treysta sér ekki til að lýsa því afdráttarlaust yfir að þeir verji ríkisstjórnina vantrausti og þingrofsbeiðni að þá sé ríkisstjórnin í raun fallin.

Ég hafði farið yfir þetta með nokkrum fjölda sjálfstæðismanna í framhaldi af þessari eftirgrennslan minni um gang mála í Sjálfstæðisflokknum og hafði orðið þess áskynja – og reyndar heyrt það úr allmörgum áttum og haft á því að mínu mati ágæta yfirsýn – að í þingflokki sjálfstæðismanna væru menn að leggja ólíkt á mat stöðuna og að þar sæju sumir sér jafnvel hag í því að stjórnarsamstarfið héldi ekki áfram og það mætti verða til þess að stokka spilin upp á nýtt innan Sjálfstæðisflokksins.

Vegna þess að ef farið yrði í kosningar við þær aðstæður sem þá voru myndi það skapa tækifæri fyrir suma en vandamál fyrir aðra í Sjálfstæðisflokknum. Það var ekki bara upplifun mín heldur vissi ég til þess að það væri fólk í flokknum sem teldi að formaðurinn ætti að víkja úr ríkisstjórn, ellegar ætti að halda kosningar

Við þessar aðstæður hitti ég formann Sjálfstæðisflokksins, hann kom nánast beint af flugvellinum, og ítrekaði það sem ég hafði sagt við hann, og aðra sjálfstæðismenn sem ég hafði verið í samskiptum við, að ég liti svo á að mönnum hlyti að vera ljóst að það væru bara tveir kostir í stöðunni. Annað hvort þjöppuðu menn stjórninni saman og segðu skýrt að þeir ætluðu allir sem einn að hafna þessari tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof og vantraust, eða stjórnin væri fallin og það yrðu því kosningar strax. Ég ítrekaði það mjög afdráttarlaust, að þetta væri mat mitt, það væru bara þessir tveir kostir.

Ég veit að aðrir höfðu velt fyrir sér hvort það kynni að vera hægt að vinna tíma með því að semja við stjórnarandstöðuna og sleppa þannig við vantrauststillögu. Slíkt taldi ég algjörlega óraunhæft. Ég taldi líka mjög mikilvægt, þegar þessi staða var uppi, að þessi afstaða mín væri ljós áður en þingflokkur sjálfstæðismanna tæki afstöðu til þess hvort hann vildi halda stjórnarsamstarfinu áfram

Ég ítrekaði afstöðu mína við formann Sjálfstæðisflokksins [á fundinum að morgni þriðjudags], og upplýsti hann sérstaklega um það síðan símleiðis, að ég myndi gera grein fyrir því opinberlega að þetta væri afstaða mín, sem ég gerði síðan í Facebookfærslu, enda ekki tími til að bregðast við mörgum viðtalsbeiðnum fjölmiðla.

Ég leit ekki á þetta sem vopn gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins, heldur frekar nauðsynlegt vopn í hans höndum, til að geta gert sínum þingmönnum grein fyrir því, sem að mínu mati á að teljast sjálfsagður hlutur, að annað hvort standi menn saman um að verja ríkisstjórn, eða að hún sé fallin. Að þegar fyrir þinginu liggi tillaga um vantraust og að boðað skuli til kosninga verði stjórnarliðar að vera skýrir um það að þeir ætli að hafna slíkum tillögum, annars sé forsætisráðherra ekki í annarri stöðu en að boða til kosninga. Þetta er lykilatriði.

Ég fer svo og hitti forsetann og lýsi í rauninni sömu afstöðu og ég hafði lýst í þessari færslu. Að það væri afstaða mín að þetta væru tveir kostir sem væru fyrir hendi og að ef í ljós kæmi að í Sjálfstæðisflokknum væri vilji til þess að styðja tillögu stjórnarandstöðu um vantraust og þingrof þá væri engin ástæða fyrir forsætisráðherra að bíða boðana, hann ætti strax og slíkt væri ljóst að rjúfa þing.“

Ólafur Ragnar hafnaði að svo stöddu skoðun forsætisráðherrans sem lagði að eigin sögn ekki fyrir forseta þingrofstillögu. Forseti efndi til blaðamannafundar strax við brottför SDG og setti á vefsíðuna forseti.is:

„Forseti á fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra sem óskaði eftir samþykki forseta við tillögu um þingrof. Fram kom að beiðnin naut ekki stuðnings Sjálfstæðisflokksins og tilkynnti forseti að hann gæti ekki samþykkt hana og myndi eiga fund með formanni Sjálfstæðisflokksins.“

 Bjarni og ÓRG hittust síðdegis þriðjudaginn 5. apríl. Á forseti.is segir:

„Forseti á fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins um þingrofsbeiðni forsætisráðherra sem og fyrirhugaðar viðræður við Sigurð Inga Jóhannesson varaformann Framsóknarflokksins um myndun nýs ráðuneytis.“

Eftir fundinn þakkaði Bjarni forseta fyrir að taka erindi SDG á þann veg sem hann gerði. Þingrof væri ekki tímabært. Um þessar sömu mundir tilkynnti SDG þingflokki framsóknarmanna að hann ætlaði að biðjast lausnar sem forsætisráðherra og vildi að Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður tæki við af sér sem forsætisráðherra. Féllst þingflokkurinn á þetta.

Þriðjudagskvöldið  5. apríl sendi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar út tilkynningu á ensku þar sem rakinn var góður árangur í efnahagsmálum í ráðherratíð SDG. Í tilkynningu sagði einnig: „The Prime Minister has not resigned“ – forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér. Hins vegar kom fram að varaformaður Framsóknarflokksins yrði forsætisráðherra „for an unspecific amount of time“, það er um óákveðinn tíma.

Þessi tilkynning vakti forundran blaðamanna enda óskiljanleg í ljósi fyrri frétta sem þeir höfðu skrifað um afsögn ráðherrans. Hér var ekkert grátt svæði, ráðherrann væri eða færi.

Embættismenn í forsætisráðuneytinu neituðu að svara fyrir þessa tilkynningu, hún hefði ekki verið borin undir þá fyrir dreifingu hennar og vísað var á Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann fráfarandi forsætisráðherra.

Þessi tilkynning og öll samskipti SDG og ÓRG þennan örlagadag báru með sér hve mikið hvíldi á SDG og hann tæki ekki endilega réttar ákvarðanir um það sem hann léti frá sér fara.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnlagafræði, sagði í ríkisútvarpinu um samskipti SDG og ÓRG og blaðamannafund forseta að loknum fundinum með SDG að forsetinn hefði „stigið með afgerandi hætti inn á pólitískan vettvang og verji hagsmuni þingsins gagnvart forsætisráðherra. Hann gangi gegn þeirri venju sem byggt hafi verið á þegar óskað er þingrofs“.

Taldi Björg að í fyrsta skipti í sögunni hefði forseti Íslands hafnað beiðni um þingrof. Hann teldi að hann hefði sjálfur mat um það hvenær það ætti við að hann féllist á slíka beiðni. Það hefði ævinlega verið metið svo að það væri á forræði forsætisráðherra að kalla eftir þingrofi.

Þegar lagt er mat á þessa skoðun prófessorsins er óhjákvæmilegt að hafa hina sérkennilegu stöðu SDG forsætisráðherra í huga. Stjórnlagafræðingar hafa til dæmis talið að í því felist ekki pólitísk eða ólögmæt íhlutun af hálfu forseta að kanna - sé samkomulag innan ríkisstjórnar um að þingrofsvaldið sé í höndum forráðamanna beggja flokka - hvort forsætisráðherra hafi samþykki hins flokksins komi það ekki fram á skjalinu sem forseta er kynnt.

Var það ekki nauðsynleg varúð af hálfu forseta kanna hug forystumanns hins stjórnarflokksins áður en hann skrifaði undir tillögu SDG? Fellur það ekki að skyldu hans sem embættismanns að fara að stjórnsýslureglum við töku ákvarðana af þessu tagi? Var þetta ekki til marks um góða stjórnarhætti? Mitt svar er já við öllum spurningunum.

3.    Að kvöldi þriðjudags 5. apríl sat Bjarni Benediktsson fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósi. Helgi sótti mjög fast að Bjarna og vildi koma því eins rækilega til skila og hann gæti að Bjarni ætti að fara sömu leið og SDG enda hefði hann einnig átt í viðskiptum sem getið væri í Panama-skjölunum um viðskiptavinu lögmannsskrifstofu í Panama sem sérhæfði sig í þjónustu við auðmenn sem vildu borga sem lægsta skatta eða helst enga.

Bjarni gerði skilmerkilega grein fyrir sinni hlið málsins sem hefði verið þaulrædd áður. Hann hefði átt í hlutafélagi um húsakaup í Dubai. Starfsemi félagsins væri lokið og hann hefði upplýst rétt yfirvöld um allt þessu lútandi. Helgi sagði að Bjarni hefði átt samkvæmt reglum alþingis að gera grein fyrir þessu við hagsmunaskráningu. Bjarni sagði svo ekki vera, Helgi færi rangt með eða skildi ekki reglurnar sem giltu um þingmenn. Helgi hélt nú ekki.

Í mbl.is birtist miðvikudaginn 6. apríl þessi frétt:

 „Skrif­stofa Alþing­is staðfesti ekki skiln­ing Kast­ljóss á regl­um um skrán­ingu hags­muna þing­manna eins og haldið var fram í um­fjöll­un þess um af­l­ands­fé­lag í eigu fjár­málaráðherra. Helgi Bernód­us­son, skrif­stofu­stjóri Alþing­is, seg­ir það alrangt og það sé þing­manna að túlka regl­urn­ar sjálf­ir.
Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra, hef­ur verið gagn­rýnd­ur fyr­ir að hafa ekki getið hlut­ar síns í af­l­ands­fé­lag­inu Fal­son & co., sem skráð var á Seychell­es-eyj­um, í hags­muna­skrán­ingu Alþing­is­manna. Hann hef­ur meðal ann­ars gefið þá skýr­ingu að þar sem að fé­lagið hafi ekki verið í at­vinnu­rekstri þá hafi hann ekki talið að sér væri skylt að greina frá því.
Í b-lið 3. grein­ar reglna um skrán­ingu fjár­hags­legra hags­muna Alþing­is­manna sem fjall­ar um eign­ir þing­manna sem ber að skrá seg­ir orðrétt: „Heiti fé­lags, spari­sjóðs eða sjálf­seign­ar­stofn­un­ar í at­vinnu­rekstri, sem alþing­ismaður á hlut í [...] “. 
Í um­fjöll­un Kast­ljóss síðasta sunnu­dag var vísað til þess að í frétta­til­kynn­ingu for­sæt­is­nefnd­ar sem setti regl­urn­ar í mars 2009 þar sem regl­urn­ar eru skýrðar sé hvergi getið um hvort fé­lög séu í at­vinnu­rekstri né held­ur er hann skil­greind­ur.
Full­yrt var að skrif­stofa Alþing­is hafi staðfest þann skiln­ing á regl­un­um. Helgi Selj­an end­ur­tók þá full­yrðingu í viðtali við fjár­málaráðherra í Kast­ljósi í gær­kvöldi. Þessu hafn­ar skrif­stofu­stjóri Alþing­is al­ger­lega.
„Það er alrangt. Ég tók það sér­stak­lega fram við frétta­mann frá Rík­is­út­varp­inu að ég hefði enga heim­ild til þess að segja hvað væri rétt eða rangt í þess­um efn­um. For­seti Alþing­is hefði ekki held­ur rétt til þess og for­sæt­is­nefnd ekki held­ur. Fram­kvæmd þess­ara reglna eru al­ger­lega á ábyrgð þing­manna sjálfra og ég tel að í því fel­ist að þeir beri ábyrgð á því hvernig þeir skilja þess­ar regl­ur,“ seg­ir Helgi í sam­tali við mbl.is.
Hann sagðist aðeins hafa talað um setn­inga­fræðileg sjón­ar­mið, um for­setn­ing­arliðinn „í at­vinnu­rekstri“, en ekki um efn­is­atriði máls­ins.
„En ég tók það sér­stak­lega fram að ég hefði enga heim­ild til að kveða upp úr um hvernig beri að skilja þetta. Við höf­um ekki staðfest nokk­urn skiln­ing að þessu leyti,“ seg­ir Helgi.
Spurður að því hvort að þing­mönn­um sé ekki í sjálfs­vald selt hvað þeir gefi upp í hags­muna­skrán­ingu sinni ef þeim er ætlað að túlka regl­urn­ar sjálf­ir seg­ist Helgi gera ráð fyr­ir að þeir nálg­ist þær af heiðarleika.

„Maður ætl­ar mönn­um ekki annað en ganga um regl­urn­ar af heiðarleika og sann­girni. Til­gang­ur þess­ara reglna er að skrá eign­ir, tekj­ur og önn­ur fríðindi sem geta orðið til vand­ræða í sam­bandi við hags­muna­árekstra við meðferð mála í þing­inu. Það er al­veg ljóst að það er lagt á menn með þess­um regl­um að skrá eign­ir. Út á það geng­ur þessi hluti regln­anna. Ég ætla öll­um mönn­um að vilja ganga heiðarlega fram en ekki með því hug­ar­fari að mistúlka þær eða sniðganga. En skrif­stof­an get­ur ekki sann­reynt að rétt sé skráð, við get­um ekki heimtað skatt­skýrsl­ur þing­manna, skrár um boðsferðir þeirra til út­landa, gjaf­ir o.s.frv. Og aðal­atriðið er að þing­menn sækja umboð sitt til kjós­enda og standa þeim reikn­ings­skap gerða sinna og orða,“ seg­ir Helgi.“

Helgi Seljan fór með rangt mál þegar hann bar fram ásakanir á hendur fjármálaráðherra. Fyrir utan að spurningar hans báru þess helst merki að hann hefði afritað gamlar spurningar sínar til Bjarna og hefði í raun ekki neinn áhuga á því sem var að gerast í stjórnmálum líðandi stundar.

4.    Í leiðurum Fréttablaðsins má greina hinar pólitísku sveiflur þessa örlagadaga.

Þorbjörn Þórðarson skrifaði leiðarann þriðjudaginn 5. apríl og sagði meðal annars:


„Í ljósi viðbragða forsætisráðherra við umfjöllun Kastljóss um aflandsfélög verður að teljast ósennilegt að hann segi af sér. Hann, líkt og aðrir íslenskir stjórnmálamenn, virðist líta á það sem pólitískan ósigur að yfirgefa embætti fremur en að líta á afsögnina sem tæki til að standa vörð um traust í garð embættisins og til að tryggja vinnufrið í því ráðuneyti sem hann stýrir.“

Þessi skoðun höfundarins reyndist ekki á rökum reist eins og sannaðist sama dag og hún birtist og forsætisráðherra steig til hliðar.

Þorbjörn Þórðarson skrifaði einnig leiðarann miðvikudaginn 6. apríl og bar hann fyrirsögnina Starfsstjórn.

Starfsstjórn er heiti á ríkisstjórn sem hefur beðist lausnar en er falið að sitja áfram þar til nýtt þing hefur verið kjörið eða ný ríkisstjórn með skýrt pólitískt umboð mynduð. Höfundurinn sem skrifar leiðarann undir þessari fyrirsögn virðist ekki hafa hugmynd um þetta eðli starfsstjórnar því að leiðarinn hefst á þessum orðum:

 „Í ljósi þeirra mikilvægu verkefna sem eru ókláruð í ríkisstjórnarsamstarfinu og háværrar kröfu frá stjórnarandstöðu og hluta þjóðarinnar um kosningar væri eðlilegast að mynda starfsstjórn í nokkra mánuði og boða til kosninga í haust.“

 

Nú segir Þorbjörn sem deginum áður taldi að SDG mundi ekki segja af sér:

„Mönnum varð ljóst þegar þáttur Kastljóss var sýndur á sunnudagskvöld að forsætisráðherra hafði þá haft rúmar þrjár vikur til að upplýsa um viðtal sem gæti orðið banabiti ríkisstjórnar hans. […] Það er hins vegar virðingarvert af forsætisráðherra að stíga til hliðar og segja af sér embætti á þessum tímapunkti en hann er fimmti ráðherrann sem það gerir í lýðveldissögunni. […]


Besti valkosturinn í stöðunni núna, eftir að forseti hefur fallist á lausnarbeiðni forsætisráðherra, er að skipa starfsstjórn í nokkra mánuði, til dæmis fram á haust, til að ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem eru á borðinu. Það væri mjög óábyrgt af stjórnarandstöðunni að styðja ekki starfsstjórn á meðan leyst er úr þessum verkefnum. [. . .] 


Að þessu sögðu er ekki víst að Sigurður Ingi Jóhannsson hafi þá pólitísku innistæðu sem er nauðsynleg til að gegna embætti forsætisráðherra í starfsstjórn fram á haust. Það er æskilegt að breið samstaða sé um forsætisráðherraefni í slíkri stjórn og að einstaklingur sem gegnir embættinu njóti trausts þvert á flokka. Í því sambandi gæti sitjandi forseti Alþingis verið góður kostur, skorist hann ekki undan ábyrgð.“

 

Á einhverju stigi lestursins dettur manni í hug að höfundur hafi utanþingsstjórn í huga – þegar hann talar um að forseti skipi starfsstjórn í nokkra mánuði. Hugmyndin um það fellur hins vegar um sjálft sig þegar hann nefnir forseta alþingis sem hugsanlegan forsætisráðherra – er hann þá að hugsa um þjóðstjórn? Það er stjórn allra flokka?

Utanþingsstjórn er stjórn skipuð mönnum utan þings en orðrómur var um að ekki hefði verið fjarlægt ÓRG að skipa slíka stjórn á lokametrum setu sinnar á Bessastöðum.

Fanney Birna Jónsdóttir skrifaði leiðara Fréttablaðsins fimmtudaginn 7. apríl.

Hún segir að SDG hafi í fyrstu verið „í algjörri afneitun um eigin slæmu stöðu“ og gert „óheiðarlega og misheppnaða tilraun til að sprengja upp ríkisstjórnarsamstarfið“ í fyrradag með því að reyna án nokkurs samráðs „að fá opna heimild frá forseta Íslands til að rjúfa þing til þess að nota til að þvinga Sjálfstæðisflokkinn til samstarfs við sig“.

Fanney Birna telur að undir forsæti Sigurðar Inga með SDG áfram á þingi verði til „skuggaráðuneyti“ SDG og segir:

„Eftir fordæmalausa hegðun samstarfsflokks í ríkisstjórn, svik, pretti og óheiðarleika, ekki aðeins í stjórnmálalegum skilningi heldur einnig siðferðislegum, virðist sjálfstæðismönnum sama þó að skuggaráðuneyti Sigmundar verði við stjórnvölinn.

Engin marktæk rök styðja fullyrðingar um að ekki sé hægt að boða strax til kosninga. Engin fyrirliggjandi mál eru með þeim hætti að starfsstjórn gæti ekki lokið þeim áður en þing verður rofið.“

Þessi orð verða ekki skilin á annan hátt en þann að höfundurinn viti ekki hvað „starfsstjórn“ og vegna þess dettur í raun botninn úr þessum hugleiðingum.

Óli Kristján Ármansson skrifar leiðarann föstudaginn 8. apríl.

Hann minnir á að  uppspretta leka Panama-skjalanna sé hjá  lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama sem hafi verið sökuð um að koma að peningaþvætti, ólöglegri vopnasölu, stórfelldum skattsvikum og skipulagðri glæpastarfsemi. Því sé áfallið mikið þegar upplýsist að nöfn Íslendinga og íslenskra stjórnmálamanna tengist stofunni.

Fullt tilefni sé til að efast um getu nýrrar ríkisstjórnar til að taka á málum sem tengjast Panama-skjölunum með trúverðugum hætti. Þá segir:

„Og raunar er skuggi ósómans sem fyrirtækinu tengist slíkur að sú staðreynd ein að stjórnmálamenn tengist þessum furðurekstri á að næga til að þeir stígi til hliðar, í það minnsta þar til þeir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum og sótt sér endurnýjað umboð til kjósenda sinna.“

 

Þetta er nýr flötur á þessu máli. Af orðunum mætti ætla að stjórnmálamenn hefðu snúið sér til lögmannanna sem um ræðir. Þar er örugglega um misskilning að ræða. Bankamenn áttu í viðskiptum lögmannsskrifstofuna án vitneskju þeirra sem treystu þeim fyrir fé sínu.

Kristín Þorsteinsdóttir aðalritstjóri sagði í leiðara Fréttablaðsins laugardag 9. apríl

Búið er að lappa upp á [ríkis]stjórnina og hún á að hanga til haustsins. Það er líklega skynsamlegt í ljósi þeirra verkefna sem bíða, og þeirrar óvissu sem fylgir forsetakosningunum.“

     Ætli Kristín eigi lokaorðið í Fréttablaðinu?