29.4.2016 12:00

Föstudagur 29. 04. 16

Um það er ekki deilt að Schengen-kerfið hrundi með hruni landamæravörslu við Miðjarðarhaf. Þótt sjá hafi mátt merki um það árum saman að hætta væri á ólöglegum straumi fólks til Evrópu frá Norður-Afríku létu stjórnmálamenn sér nægja að tala um vandann á vettvangi ESB. Þeir gripu ekki til neinna markvissra gagnaðgerða fyrr en fréttir af mannskæðum sjóslysum bárust. Var þá fólk á leið frá Líbíu til Ítalíu.

Síðan bárust fréttir um straum fólks til Grikklands frá Tyrklandi, fyrst á landi og síðan sjó. Ekki var brugðist við þeim vanda fyrr en í óefni var komið eins og dæmin sanna. Það var ekki fyrr en Angela Merkel hafði opnað Þýsakaland fyrir farand- og flóttafólki og meira en milljón manns höfðu streymt til Þýskalands í vaxandi óþökk Þjóðverja sem vandinn var viðurkenndur á þann hátt sem átti að gera miklu fyrr.

Nú hefur pendúllinn sveiflast í hina áttina og er þróun mála í Austurríki ágætt dæmi um það. Þegar ríkisstjórn Ungverjalands ákvað að stöðva straum fólks frá Júgóslavíu fyrrverandi til Ungverjalands og reisti mannhelda girðingu á landamærunum heyrðust hneykslunarraddir víða ekki síst í Austurríki þar sem menn töldu sig þroskaðri en svo að þola ætti svo ómannúðlegar aðfarir.

Staðan er nú þannig í Austurríki að sá sigraði í fyrri umferð forsetakosninga sem helst varar við ólöglegum straumi fólks til landsins. Samþykkt hafa verið ströng ákvæði í útlendingalögum sem veitir ríkisstjórninni aukið vald til að vísa fólki úr landi. Landamærunum gagnvart Slóveníu hefur verið lokað og nú er rætt um að reisa 400 m langa mannhelda girðingu í Brenner-skarði í Ölpunum til að loka landamærunum gagnvart Ítalíu af ótta við að um það muni annars berast bylgja af fólki frá Líbíu.

Straumur ólöglegra eykst hingað til lands. Viðbrögðin minna því miður um of á það sem kallað hefur stórvandræði yfir flest nágrannaríkin. Rætt um málið án þess að grípa til raunhæfra aðgerða. Kostnaður vegna komu hinna ólöglegu vex jafnt og þétt og þeir kalla á vandræði af ýmsum toga eins og sést af fréttum frá Kjalarnesi.

Margt bendir til að alþingismenn misskilji stöðuna og telji lausn vandans felast í nýrri löggjöf eða samtali þeirra á milli. Lausnin felst í að nýta gildandi lagaheimildir og herða landamæravörslu.