Föstudagur 15. 04. 16
Samtal mitt við Sigríði Á. Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN miðvikudaginn 13. apríl er komið á netið og má sjá það hér.
Hún staðfestir það sem augljóst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) var ekki að leita eftir vopni til að verja Bjarna Benediktsson í innanflokksátökum með því að óska eftir staðfestingu ákvörðunar um þingrof. Miðað við viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar má alveg eins ætla að SDG hafi verið að sækja sér vopn til að verjast þeirri hugmynd sem var á sveimi að mynda ætti utanþingsstjórn. Hugmynd um slíka stjórn getur varla hafa komið frá öðrum en Ólafi Ragnari sjálfum.
Ólafur Ragnar dramatíseraði heimkomu sína frá Bandaríkjunum þar sem hann var í fríi.
Hann ætlaði að hitta SDG klukkan 13.00 til að ræða landsins gagn og nauðsynjar en SDG bað um að fundinum yrði flýtt til kl. 11.00 og kom Ólafi Ragnari í opna skjöldu með því að hafa með sér embættismenn og sjálfa ríkisráðstöskuna.
Samhliða því sem stjórnarflokkarnir lögðu á ráðin um að starfa áfram saman án SDG mátti lesa vangaveltur í leiðurum Fréttablaðsins um að mynda yrði það sem leiðarahöfundar kölluðu ranglega „starfsstjórn“ þegar þeir áttu við utanþingsstjórn, það er stjórn sem forseti skipar af því að ekki er samstaða um meirihluta að baki ríkisstjórn í krafti þingræðis á alþingi. Var tilviljun að á þessu var klaufalega hamrað af tveimur leiðarahöfundum? Þeir skyldu þó ekki hafa fengið vísbendingu frá einhverjum nærri forseta Íslands?
Hafi Ólafur Ragnar verið með vangaveltur um þetta hefði hann jafnframt þurft að eiga innhlaup á hinn pólitíska vettvang til að fá þar fótfestu fyrir hugmyndina. Í hans huga lá beinast við að ræða málið á þeim nótum við forsætisráðherra. Í lok janúar 2009 fékk hann SDG, nýkjörinn formann Framsóknarflokksins, til að styðja minnihlutastjórnina sem Ólafur Ragnar myndaði fríhendis undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Eftir kosningar 2013 þegar Jóhanna og Steingrímur J. lágu í valnum fól Ólafur Ragnar SDG umboð til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum. Hugsanlega leit forseti á það sem einhvern örlætisgjörning af sinni hálfu og taldi nú brostnar forsendur fyrir honum – þær voru það gagnvart SDG sem naut ekki lengur stuðnings eigin þingflokks en ekki gagnvart meirihluta á þingi. Hafi utanþingsstjórn verið í spilunum runnu öll áform um hana út í sandinn vegna samstöðu þingmanna.