4.4.2016 18:00

Mánudagur 04. 04. 16

Af erlendum fjölmiðlum má ráða að sjónvarpsviðtalið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra veitti í Ráðherrabústaðnum 11. mars veldur honum álitshnekki víðar en á  Íslandi. Hann hefur beðist afsökunar á framgöngu sinni. Kann það að róa stuðningsmenn hans á heimavelli en breytir litlu ef nokkru út á við. Er þetta mjög miður ekki síst í ljósi þess að Sigmundur Davíð hefur gengið fram sem stjórnmálamaður með heiður lands og þjóðar að leiðarljósi á alþjóðavettvangi. Eftir einn sjónvarpsþátt snýst það í andhverfu sína. Ótrúlegt en satt.

Ég vakti máls á þessu á FB-síðu minni og meðal þeirra sem sögðu álit sitt var Sveinn Eldon, háskólakennari í Helsinki sem taldi að blaðafulltrúi stjórnarráðsins hefði „ átt að ráða forsætisráðherra frá að ræða við blaðamenn sænska ríkissjónvarpsins“. Þeir hefðu verið frá þættinum Uppdrag granskning og hefðu sérhæft sig í að spyrja viðmælendur spurninga sem kæmu þeim í opna skjöldu. „Málið er engan veginn eins alvarlegt og af er látið. Stormur í vatnsglasi,“ segir Sveinn Eldon á FB-síðunni.

Ég hef aldrei horft á þennan þátt sem Sveinn nefnir. Hvað sem orðspori þáttarins líður eru viðbrögðin alvarleg fyrir Sigmund Davíð og íslensk stjórnvöld.

Undarlegt var í Kastljós-þættinum hvernig spurningum til forsætisráðherra var beint að honum persónulega og enn undarlegra að óvæntur spyrjandi eins og laumaði sér inn í þáttinn.

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra, var fréttamaður á sjónvarpinu. Hann lætur verulega að sér kveða á FB og spurði ég hvort hann myndi eftir að stofnað hefði verið til sjónvarpsviðtals á ákveðnum forsendum og í miðju samtalinu birtist nýr spyrjandi úr felum og beindi samtalinu inn á nýjar brautir. Eiður Svanberg mundi ekki eftir því. Hann myndi eftir einu dæmi þess að sjónvarpinu hefði verið neitað um leyfi til að taka myndir á fundi í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Hann minntist þess heldur aldrei að nokkur forsætisráðherra, - þau ár sem hann starfaði í sjónvarpsfréttum - 1967 til 1977 hefði neitað að tala við þá, eða svara spurningum.

Nú hafa þúsundir manna komið saman á Austurvelli til að mótmæla Sigmundi Davíð. Að láta eins og ekkert hafi í skorist og að nóg sé að biðjast afsökunar á misheppnaðri framgöngu í sjónvarpsþætti er mikill misskilningur.