24.4.2016 19:00

Sunnudagur 24. 04. 16

Í þrjú ár hefur hér verið stjórnarandstaða sem varið hefur mestum tíma á alþingi til að ræða mál undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta. Er raunar óskiljanlegt að þeirri glufu til að sýna forseta alþingis og þinginu sjálfu óvirðingu skuli ekki hafa verið lokað. Eitt er víst að stjórnarandstaðan metur það alls ekki neins við stjórnarliða að gefa henni þetta fría spil til að þusa um allt og ekkert.

Hafi það verið von stjórnarflokkanna að skapa frið um þingstörfin með því að koma til móts við kröfuna um kosningar sem fyrst hljóta forystumenn ríkisstjórnarinnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Stjórnarandstaðan metur þá sáttarhönd einskis.

Til að árétta vilja sinn til samráðs hafa forystumenn stjórnarandstöðunnar verið boðaðir til funda með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í Stjórnarráðshúsinu. Þeir fundir eru til einskis eins og sést af þessum ummælum Svandísar Svavarsdóttur í sjónvarpssamtali í morgun:

„Maður er nátt­úru­lega hissa, svo ekki sé fast­ar að orði kveðið, að ekki sé hægt að setja ein­fald­lega niður þenn­an dag og ég skil það ekki að það sé búið að halda tvo fundi í stjórn­ar­ráðinu með stjórn­ar­and­stöðunni og afrakst­ur­inn skuli enn vera sá að það sé ennþá loðið og lævi blandið hvenær verður kosið. Mér finnst þetta dóna­legt gagn­vart þjóðinni.“

Stjórnarandstaðan á enga heimtingu á að nefnd sé við hana annar kjördagur en sá sem mælt er fyrir í stjórnarskránni, hann er eftir um það bil eitt ár. Náist ekki samkomulag um framgang þingmála á þann veg sem meirihluti alþingis ákveður skapar það stjórnarandstöðunni engan rétt. Allan vafa í þessu máli ber að skýra stjórnarskránni í vil. Að kalla það „dónalegt“ er ekki til marks um annað en rakalausa frekju.

Eftir að hafa talað á þennan veg tók Svandís að býsnast yfir þingmálaskrá sem ríkisstjórnin hefur kynnt stjórnarandstöðunni vegna ítekaðra krafna hennar.

Þeir sem í þrjú ár hafa reist þingstörf sín á glufu í þingsköpum sjá að sjálfsögðu ekkert athugavert við breyta stjórnmálabaráttunni í kveinstafi yfir að vita ekki um kjördag og nöldur yfir fjölda mála á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.