Fimmtudagur 07. 04. 16
Greiðst hefur á farsælan hátt úr því sem virtist illleysanlegur pólitískur hnútur að kvöldi sunnudags 3. apríl þegar landsmenn sátu agndofa eftir aðförina að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) forsætisráðherra í aukaþætti af Kastljósi sjónvarpsins. Ríkisstjórn Framsóknarlokks og Sjálfstæðisflokks tók á sig nýja mynd í dag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ) tók við af SDG sem forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson varð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í stað Gunnars Braga.
Lilja er óskrifað blað á stjórnmálavettvangi enda á hún ekki sæti á alþingi. Henni er hins vegar hælt fyrir störf hennar að efnahags- og bankamálum hér á landi og erlendis. Er ekki að efa að hún leggur sinn skerf af mörkum við framkvæmd meginmáls endurnýjaðrar ríkisstjórnar, afnáms fjármagnshaftanna.
Mánudagurinn 4. apríl var dagur biðleikja enda var Bjarni Benediktsson erlendis og Ólafur Ragnar Grímsson. SDG taldi þá að hann væri ekki á förum. Innan ráða flokks hans og meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins gætti hins vegar mikillar og vaxandi ólgu. Efnt var til fjöldamótmæla á Austurvelli í mikilli veðurblíðu og segja skipuleggjendur að 23.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum þar sem SDG var helsti skotspónninn.
Úrslitadagurinn fyrir SDG var þriðjudagurinn 5. apríl og hefur atburðum hans þegar verið lýst hér í dagbókinni. Miðvikudagurinn 6. apríl var dagur ákvarðana í ljósi afsagnar SDG. Um klukkan 22.00 þann dag lá niðurstaða beggja stjórnarflokkanna fyrir og kynntu SIJ og Bjarni hana fyrir fréttamönnum í þinghúsinu.
Klukkan 15.20 í dag gekk SDG út á tröppur Bessastaða og ræddi í nokkrar mínútur við fréttamenn en lítill hópur öskrandi fólks sem flutti óhróður í garð SDG.
Sjónvarp ríkisins hefur haldið úti beinum útsendingum tímunum saman án þess í raun að hafa nægilegt magn af áhugaverðu efni til að halda athyglinni vakandi. Spjall og getgátur hafa sett mikinn svip á þessar útsendingar.
Spaugilegt atvik varð síðdegis 6. apríl þegar Höskuldur Þórhallsson, þingmaður framsóknar, ræddi grandalaus og af hreinskilni við fréttamenn í beinni útsendingu á leið sinni niður stiga í skálanum við þinghúsið og skýrði þeim frá ákvörðunum þingflokksins í þeirri trú að forystumenn stjórnarflokkanna hefðu þegar sagt frá þessum tíðindum.
Atvikið minnir á að óviðunandi aðstaða er fyrir fréttamenn í þinghúsinu auk þess sem óviðunandi er að þingmenn geti ekki gengið um húsið án þess að setið sé fyrir þeim.
Ekki verður annað sagt en stjórnarflokkarnir hafi haldið skipulega og af festu á málum frá því klukkan 19.00 sunnudaginn 3. apríl til 15.20 fimmtudaginn 7. apríl þegar SDG kvaddi Bessastaði.