Fimmtudagur 21. 04. 16
Athyglin beinist nú að fjórða valdinu, fjölmiðlunum, hér á landi vegna upplýsinga úr Panama-skjölunum. Upplýst er um umsvif Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og konu hans, Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, í þremur vefmiðlum í morgun Stundinni, Reykjavík media og Kjarnanum. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir á síðunni í dag:
„Þrátt fyrir að Ingibjörg hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum. Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið.
Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum hafa lengi skoðað alls kyns tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra á lokametrunum fyrir hrun eða á misserunum eftir það. Með litlum árangri. Peningarnir virtust hafa farið til peningahimna.“
Í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi segir:
„Fjárhag 365 miðla ehf. þurfti að styrkja í árslok 2009. Í lok mars 2010 staðfesti Ingibjörg S. Pálmadóttir, stjórnaformaður 365 miðla ehf., að tekist hefði að afla félaginu milljarðs króna í aukið hlutafé [...] „Ég er ánægð að þetta er í höfn,“ sagði Ingibjörg við Fréttablaðið sem skýrði frá því að Ingibjörg færi með 90,2% af A-bréfum, atkvæðisbæru hlutafé. [...] Ingibjörgu þótti ástæðulaust að skýra hverjir færu með eignarhald á B-bréfum 365. „Það eru þöglir hluthafar sem fara ekki með atkvæði í félaginu og hafa þess vegna engin áhrif á stjórnun þess.“ Þá áréttaði Ingibjörg að hún færi sjálf með atkvæðisréttinn í 365 miðlum. „Eiginmaður hennar og meðeigandi að félaginu er Jón Ásgeir Jóhannesson,“ sagði í lok fréttar Fréttablaðsins.“ (31. mars 2010).
Í bókinni er vitnað í viðtal við Jón Ásgeir á Stöð 2 í september þá féllu orð á þennan veg:
Fréttamaður: Hefurðu komið einhverjum fjármunum undan?
Jón Ásgeir: Nei. Það er enginn fjársjóður á Tortola eða einhvers staðar í suðurhöfum.
Fréttamaður: Hver er staðan þín?
Jón Ásgeir: Mín persónulega staða? Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg.