Miðvikudagur 29. 06. 16
Í dag ræddi ég við Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra í þætti mínum á ÍNN. Hún hefur verið tæpa tvo mánuði í ríkisstjórninni og orðið að takast á við mörg mikilvæg málefni eins og nú síðast úrsögn Breta úr ESB. Áður starfaði Lilja að alþjóðamálum í Seðlabanka Íslands og þess vegna er forvitnilegt að heyra viðhorf hennar til alþjóða efnahagsmála.
Áður hefur verið vakið máls á því hér að einkennilegt hafi verið af biskupnum yfir Íslandi og vígslubiskupnum á Hólum að rita grein í Morgunblaðið og kvarta undan því að íslenskir embættismenn færu að lögum og alþjóðasamningum við ákvörðun í útlendingamálum.
Nú hefur næsta skref verið stigið á sömu braut af þjónum þjóðkirkjunnar með því að breyta Laugarneskirkju í griðastað fyrir tvo unga Íraka sem dvöldust hér ólöglega og hafði því verið vísað úr landi. Þeir höfðu fengið viðvörun um brottvísunina og hvenær þeir yrðu sóttir af lögreglu og fluttir út á Keflavíkurflugvöll að morgni þriðjudags 28. júní.
Hælisleitendurnir sátu með stuðningsmönnum í Laugarneskirkju þegar lögregla sótti þá. Þeir neituðu að fara að fyrirmælum hennar og voru þá beittir valdi. Stuðningsmennirnir reyndu að hindra lögregluna við skyldustörf hennar og aðrir tóku mynd af lögreglunni að störfum og hefur myndskeiði nú verið dreift um heiminn. Af fréttum ríkisútvarpsins má ráða að það sé gert í því skyni að gera á hlut lögreglunnar eða Íslendinga almennt.
Eins og oft áður er leitast við að bæta málstað hælisleitendanna með ósannindum, að þessu sinni um aldur þeirra. Þá er dregin upp sú mynd að þeim séu settir afarkostir með að flytja þá til Noregs þar sem fjallað verður um mál þeirra eins ber að gera lögum samkvæmt.
Þeir sem jafnan hafa horn í síðu þjóðkirkjunnar, Siðmennt og Vantrú, lýsa nú ánægju með griðastaðinn í Laugarneskirkju og sömu sögu er að segja um stjórnleysingjasamtökin No Borders.
Baráttan gegn lögmætum ákvörðunum stjórnvalda um málefni hælisleitenda er fyrir löngu komin í öngstræti. Hún tekur þess vegna á sig sífellt undarlegri myndir hvort heldur er um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli eða í Laugarneskirkju.