24.6.2016 11:00

Föstudagur 24. 06. 16

Ákvörðun Breta um að standa utan Evrópusambandið er heimssögulegur atburður sem hefur áhrif langt út fyrir Bretland. Í grein í Morgunblaðinu í dag minni ég á hve nauðsynlegt er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með því sem gerist í Bretlandi. Ákvarðanir breskra stjórnvalda hafa oftar en einu sinni haft gífurleg áhrif hér á landi.

Skilin innan Sameinaða konungdæmisins, Bretlands, skýrðust betur en áður í atkvæðagreiðslunni. Skotar og Norður-Írlendingar vilja halda áfram í ESB en Englendingar og Walesbúar vilja á brott. Niðurstaðan vekur að nýju spurninguna um sjálfstæði Skotlands og ætlar stjórnin þar að undirbúa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Afstaða Breta gegn ESB á ekki að koma neinum á óvart sem fylgist náið með þróun mála innan Evrópusambandsins. Miðstjórnarátta Brusselmanna sem starfa án lýðræðislegs umboðs veikir stöðu ESB meðal almennra borgara aðildarlandanna. Viðbrögð Brusselmanna vegna ákvörðunar Breta munu einkennast af hroka í garð Breta og viðleitni til að tyggja eigin völd og áhrif. Íslensk stjórnvöld kynntust þessu viðhorfi í ESB-aðildarviðræðunum og þegar umsóknin var afturkölluð.

David Cameron forsætisráðherra hefur ákveðið að segja af sér vegna úrslitanna. Hann sýnir þar enn virðingu sína fyrir opnum, lýðræðislegum stjórnarháttum. Afstaða hans er í hróplegri andstöðu við viðhorf æðstu stjórnenda ESB. Spennandi verður að sjá hvernig ráðamenn einstakra ESB-landa bregðast við niðurstöðunni í Bretlandi. Þeir sækja umboð sitt til kjósenda sem sætta sig sífellt verr við vald Brusselmanna.

Afstaða Camerons er einnig andstæð viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar þegar stefnu þeirra og samningum um Icesave-málið var hafnað af þjóðinni í tveimur atkvæðagreiðslum.

Sama viðhorf og ríkir hjá Brusselmönnum er unnt að greina innan íslenska stjórnkerfisins. Má þar til dæmis nefna hin svonefndu opinberu hlutafélög, ohf., á borð við ISAVIA, Ríkisútvarpið og Landsnet. Öll eiga þessi opinberu hlutafélög í útistöðum við almenna borgara á einn eða annan hátt. Hafa þeir meðal annars orðið að leita til dómstóla til að verja rétt sinn gagnvart ISAVIA og Landsnets. Leyndarhyggjan innan ISAVIA í máli Kaffitárs nær yfir öll skynsamleg mörk.