5.6.2016 13:30

Sunnudagur 05. 06. 16

Úrslitin í formannskjöri Samfylkingarinnar voru að Oddný Harðardóttir var sögð hafa fengið 60% en Magnús Orri Schram um 40%. Hvað um Helga Hjörvar, formann þingflokks Samfylkingarinnar? Þegar ofangreindar tölur eru skoðaðar má ætla að Helgi Hjörvar og Guðmundur Ari Sigurjónsson hafi ekki notið neins stuðnings. Fréttirnar gáfu ekki rétta mynd.

Það var ekki fyrr en á Vef-Þjóðviljanum á andriki.is að fullnægjandi skýring fékkst á málinu. Þar sagði laugardaginn 4. júní:

„ Þegar betur er að gáð kemur í ljós að Samfylkingin hefur sett upp kosningakerfi sem leiðir ekki endilega besta kostinn til öndvegis heldur þann sem fæstum þykir sístur. Ekki þann sem heillar helst heldur þann sem fæstir hafa óþol gegn.

Þannig fékk Oddný alls ekki 60% atkvæða í fyrsta sætið heldur aðeins 42%. Og Helgi Hjörvar var ekki án atkvæða í fyrsta sætið heldur vildu 23% að hann yrði formaður.

Samfylking lét félagsmenn sína nefnilega einnig kjósa um hvaða frambjóðanda þeim þætti best að hafa í öðru, þriðja og fjórða sæti í kjörinu.“

Magnús Orri fékk 31,2% í fyrsta sæti og Guðmundur Ari 4%.

Í þessu eins og svo mörgu öðru hjá Samfylkingunni er reynt að fegra hlutina út á við. Enginn formannsframbjóðendanna naut stuðnings meirihluta af 3.787 atkvæðum sem greidd voru.

Margar fréttir í blöðum og á vefsíðum ná of skammt til að lesandinn sjái í hendi sér um hvað málið snýst. Þetta er mikill ljóður á ráði frétta- og blaðamanna og má ef til vill rekja til þess að ekki er um neinn yfirlestur og ábendingar á ritstjórnum að ræða áður en viðkomandi frétt er birt. Stundum er eins og um hálfunninn texta sé að ræða. Oft er kröfunni um mikinn hraða um að kenna. Hitt blasir þó ekki síður við að sá sem skrifaði skilur ekki um hvað málið snýst eða gerir engan mun á auka- og aðalatriðum.


Einkennilegt er þegar gamlar fréttir eru lesnar í ríkisútvarpinu án þess að dagsetningum sé breytt. Í morgun var til dæmis sagt að Múhameð Alí hefði andast í gærkvöldi þegar átti að segja fyrrakvöld. Hann verður jarðsunginn í Louisville í Kentucky. Hér má heyra framburðinn á borgarnafninu.