Miðvikudagur 01. 06. 16
Guðni Th. Jóhannesson sendi mér bréf vegna þess sem sagði hér á síðunni í gær. Sér hefði sárnað að ég skrifaði þetta: „Í fyrirlestri í Háskólanum í Bifröst 3. maí 2013 lýsti Guðni Th. Jóhannesson því að „ómenntuð sveitakona“ hefði verið „með það á hreinu að Íslendingar voru að berjast fyrir lífsafkomu sinni og að skipherrarnir á varðskipunum voru þjóðhetjurnar sem unnu stríðið“."
Þá segir Guðni Th. í bréfinu að ég geti auðvitað haldið því fram að hann hafi sagt þetta en hann hafi hins vegar birt ummæli á glæru eftir unga stúlku. „Þessi ummæli hafði ég á glærum. Sakaðu dótturina um að kalla móður sína ómenntaða sveitakonu, ekki mig. Eins og þú ættir að geta séð og heyrt var engin niðrunartónn í ummælunum, nemandinn var að bera saman sjónarmið og vildi hnykkja á því að móðirin, ekki langskólagengin, hefði sína sýn á þessi átök á meðan yngri kynslóðin virtist hafa gleymt þeim.“
Mér er ljúft að birta þessa athugasemd frá forsetaframbjóðandanum. Það er hins vegar langsótt hjá honum að ég hafi borið á hann sakir fyrir þessi ummæli og ég eigi að beina ásökunum að nemanda hans sem getið var á glærunni. Mér finnst einfaldlega ekkert athugavert við þessi orð á glærunni. Ég birti þau í dagbókarfærslunni í gær til að bregða ljósi á ummæli Guðna Th. sjálfs um „fávísa lýðinn“. Í lok færslunnar sagði ég:
„Fyrir 15 árum höfðu olíufélögin samráð um verð á ýmsum vörum. Vegna rannsóknar málsins voru birt tölvubréf sem gengu á milli starfsmanna félaganna. Í einu þeirra voru orð sem urðu fleyg: „fólk er fífl!!!!“ Hvert sem tilefnið var spillti þetta málstað félaganna mjög meðal almennings. Orð Guðna Th. „fávís lýðurinn“ eru af sama meiði. Þau breytast ekki með árásum á Davíð Oddsson.“
Í kosninga- og stjórnmálabaráttu verða frambjóðendur og forystumenn að sætta sig að vitnað sé til orða þeirra við skýringar á skoðunum og viðhorfum. Þetta er skrifað í Berlín en í þýskum fjölmiðlum á varaformaður flokksins AfD í vök að verjast vegna orða sem hann lét falla um blökkumann í landsliði Þjóðverja í knattspyrnu: hann kynni að vera vinsæll á vellinum en fáir vildu hann fyrir nágranna. Fyrsta vörn varaformannsins var að neita að rétt væri eftir sér haft og gerði hann með því vont mál verra fyrir sig.