3.6.2016 12:00

Föstudagur 03. 06. 16

Vorþingi lauk í gær en ekki 145. löggjafarþinginu. Því verður fram haldið síðar í sumar. Þingmenn koma aftur saman til nefndarfunda og þingfunda í ágústmánuði. Stefnt er að þingkosningum fyrir lok október. 

Einar K. Guðfinnsson þingforseti flutti ávarp í lok fundar í gær og sagði að þingið hefði á þessum vetri „tekið til meðferðar ýmis stór mál og leitt til lykta með farsælum hætti. Væntanlega eru okkur flestum efst í huga tvö lagafrumvörp sem lúta að afléttingu gjaldeyrishafta auk þess máls sem við afgreiddum rétt í þessu, fyrr á þessum fundi“. 

Málið sem þingforseti vísar þarna til er frumvarp sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra flutti til að skapa fótfestu fyrir stjórnvöld gegn nýrri „snjóhengju“, það er gegn því að eigendur erlends fjármagns högnuðust á skammtímaviðskiptum vegna hárra vaxta hér á landi.

Seðlabankinn hefur nú fengið heimild til þess að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna fjárfestinga þar sem horft sé til skammtímaávinnings vegna vaxtamunar milli Íslands og annarra landa og gengisbreytinga. Getur bankinn þannig sett reglur um bindiskyldu á reiðufé sem getur numið allt að 75% af viðskiptunum á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi til allt að fimm ára. 

Það sýnir hve staða þessara mála er viðkvæm núna að Bjarni Benediktsson sagði við meðferð málsins, sem lagt var fram með mjög skömmum fyrirvara, að hann vildi ekki „bera áhættuna af því að taka það til skoðunar í nokkra mánuði vegna þess að við sjáum viss merki þess nú þegar að áhugi á viðskiptum af þessu tagi sé ört vaxandi“.

Þessi mál endurspegla gjörbreytinguna sem orðið hefur í efnahagsmálum Íslendinga í tíð ríkisstjórnarinnar sem nú vill að kosið verði í haust. Er einkennilegt að um það skuli deilt að ákveðið hafi verið að efna til kosninga sem fyrst  slík þáttaskil í efnahagsmálunum. Kjósendur eiga kröfu á að vita hvert flokkar vilja stefna á hinum nýja grunni.

Frá hausti 2008 hefur hrunið sem þá varð mótað allt stjórnmálalífið. Tvær ríkisstjórnir hafa setið. Vinstri stjórn sem gerði í raun illt verra. Mið-hægristjórn sem horfðist í augu við vandann og sigraðist á honum. Kostirnir eru skýrir og skynsamlegt að kalla sem fyrst fram afstöðu kjósenda