4.6.2016 18:30

Laugardagur 04. 06. 16

Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Úrslitin voru kynnt á landsfundi flokksins í gær (3. júní). Hún hlaut 59,9% atkvæða af 3.787 atkvæðum sem greidd voru. Magnús Orri hlaut 40,1% atkvæða.

Oddný flutti stefnuræðu á landsfundinum í dag. Þá var einnig samþykkt stutt ályktun. Hvorki í stefnuræðunni né ályktuninni er að finna eitt einasta orð um stefnu flokksins í utanríkismálum eða öryggis- og varnarmálum. Ekki er heldur minnst einu orði á Evrópusambandið sem hefur til þessa verið burðarásin í stefnu flokksins. Panamaskjölin koma nú sem sameiningartæki Samfylkingarinnar.

Er með ólíkindum á hve hröðum flótta Samfylkingin er frá ESB-stefnu sinni. Gildir sama um Samfylkinguna og ESB og hinn nýja flokk Viðreisn og ESB. Viðreisn flaggar ekki heldur neinni ESB-stefnu.

Þegar verktaki stækkunardeildar ESB opnaði Evrópustofu í Suðurgötu í Reykjavík 21. janúar 2012 var Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra fulltrúi Íslands. Hún flutti ræðu við athöfnina og sagði meðal annars að innan tíðar stæði íslenska þjóðin frammi fyrir mikilvægri ákvörðun og síðan:

„Þetta verður ákvörðun sem sem varðar ungt fólk og framtíð þess. Því er nauðsynlegt að upplýsingar um Evrópumál verði ungu fólki aðgengilegar. Opnun Evrópustofu er stórt lýðræðislegt skref. Lýðræðið þrífst jú ekki án upplýsinga. Ég vænti þess að Evrópustofa stuðli að upplýstri og góðri umræðu um þessi mikilvægu mál.“

Þessi orð féllu skömmu eftir að Jóni Bjarnasyni (VG) hafði verið bolað úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og um sama leyti og eftirmaður hans Steingrímur J. Sigfússon fór til Brussel í von um að geta leyst hnútinn í sjávarútvegsmálunum með Brusselmönnum. Það tókst ekki og í raun urðu ESB-viðræðurnar að engu nokkrum vikum síðar.

Upplýsingum um þetta var haldið leyndum þar til eftir stjórnarskiptin 2013. Í aðdraganda landsfundar Samfylkingarinnar sagði Árni Páll Árnasonar, forveri Oddnýjar: „Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjalda­samkomulagi, sem aldrei hélt …“ Þannig birtist lýðræðisástin þá með aðild Oddnýjar Harðardóttur.

Það er ótrúverðugt að Oddný Harðadóttir noti Panamaskjölin nú til að kynna Samfylkinguna sem flokk sem vilji „uppræta kerfi blekkingar og spillingar“. Er til meiri pólitísk spilling en reyna að troða Íslandi í ESB í krafti flókins baktjaldamakks?