Fimmtudagur 02. 06. 16
Flugum heim frá Berlín í dag með WOW-air. Allt var á áætlun og stóð eins og stafur á bók. Schönefeld-flugvöllur í Berlín er á sinn hátt minnisvarði um DDR. Hann átti að víkja árið 2010 fyrir nýjum flugvelli, Berlin Brandenburg. Hvert hneykslið hefur rekið annað vegna nýja vallarins sem sumir segja nú að verði ekki nothæfur fyrr en 2019. Ákveðið er að Schönefeld verði notaður áfram en flugstöðvarbyggingin hlýtur að verða endurgerð.
Gunnar Waage trommari, tónskáld og skólastjóri Trommuskólans heldur úti einni ef ekki fleiri vefsíðum um þjóðfélagsmál. Hann er eindreginn andstæðingur Davíðs Oddssonar. Gunnar bregst illa við því sem ég sagði hér í dagbókinni í gær. Hann telur nauðsynlegt að snúast til varnar fyrir Guðna Th. Jóhannesson og gerir það með þessum orðum:
„Björn Bjarnason er sama tegund [og Davíð Oddsson], siðblindur og með hreinar ranghugmyndir um stöðu sína í samfélaginu. Hann segir nú einnig frjálslega frá því á blogsíðu sinni að hann sjái ekkert athugavert við að hafa haft rangt eftir Guðna Th. Jóhannessyni, þar sem að það sé barasta Modus Operandi í pólitík. Málflutningur Björns Bjarnasonar er sjúklegur. Það er fyllilega ljóst að landinu hefur verið stjórnað af mönnum eins og Birni sem áður var dóms og kirkjumálamálaráðherra, sem hvorki sjá neina ástæðu til sanngirni né sannsögli.“
Gunnar Waage tekur sér það bessaleyfi að birta í heild textann hér í dagbókinni í gær með þeim formála til lesenda sinna að hafi þeir „fræðilegan áhuga á að virða fyrir [sér] skólabókardæmi úr geðfræðinni með því að gægjast inn í hugarheim siðblinds veruleikafirrts manns sem eitt sinn var ráðherra í Íslenskri ríkisstjórn“ skuli þeir lesa texta minn.
Málflutningur af þessu tagi er framboði eða málstað Guðna Th. hvorki sæmandi né til framdráttar. Að kvöldi gærdagsins barst mér allt annars konar kveðja frá Guðna sjálfum í tölvubréfi með fyrirsögninni þakkir: „Sæll,Las bloggið þitt. Takk fyrir að birta aths. No hard feelings Kv. Guðni“
Orðbragð Gunnars Waage og afstaða er langt út fyrir það sem venjulegt er. Hann er fastur pistlahöfundur á Kvennablaðinu.