Fimmtudagur 23. 06. 16
Í gær ræddi ég við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur lögmann á ÍNN um ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og forsetakosningarnar hér. Samtalið er komið á netið og má sjá það hér.
Áhyggjur þeirra sem telja að illt umtal um Ísland í heimspressunni skaði þjóðina hljóta að hverfa núna lesi þeir allt sem ritað er um Ísland í tilefni af velgengni íslenska karlalandsliðsins á EM 2016. Í danska blaðinu Jyllands-Posten er til dæmis í dag talað um að Ísland hafi verið EM's positive overraskelse, jákvætt undrunarefni mótsins. Þá segir að íslensku leikmennirnir skapi nú mikið af góðu efni fyrir sagnamenn framtíðarinnar á eldfjallaeyjunni. Dvergur í heimi knattspyrnunnar bregði hvað eftir annað fæti fyrir hina stóru. Vanmetins byrjandans í EM bíði nú að leika í 16 liða riðli við hvorki meira né minna en sjálfa Englendinga sem með réttu megi flokka með stóru knattspyrnuþjóðunum og kalla fastaþátttakendur í lokariðlum stórmóta.
Í dönskum fjölmiðlum í dag er einnig sagt frá því að Bertel Haarder menningarmálaráðherra hafi vilja losna við orðin public service úr dönsku máli. Hann hafi stofnað til óformlegrar samkeppni um nýtt danskt orð um fyrirbærið. Bent er á að í Noregi tali menn um allmennkringkasting.
Tillögur bárust um um dönsku orðin formidlingspligt, fællestjenesten, folkeudsendelser, breddeoplysning, folkelig medietjeneste, bredde-service og VOFFI – Vores Fælles Formidling og Information.
Niðurstaða Dansk Kunstnerråd var að áfram skyldi nota orðin public service í dönsku máli næstvinsælust voru orðin folkelig oplysning.
Bertel Haarder hefði sjálfur kosið almentjeneste, folkelig oplysning, fælles formidling og VOFFI – Vores Fælles Formidling og Information.
Hér á landi er orðið almannaútvarp og er hugtakið skilgreint á þann hátt að útvarpið þurfi ekki að vera ríkisrekið.