Fimmtudagur 30. 06. 16
Þeim sem fylgst hefur með framvindu mála og umræðum um þróun öryggismála á N-Atlantshafi kemur ekki á óvart að stjórnvöldum á Íslandi og í Bandaríkjunum þyki tímabært að árétta pólitískan stuðning við aukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi með formlegri yfirlýsingu. Það var gert miðvikudaginn 29. júní í sameiginlegri yfirlýsingu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Roberts O. Works, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Frétt utanríkisráðuneytisins um málið og yfirlýsinguna í heild má lesa hér.
Þarna er hvorki talað um fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi né annað en starfsemi sem hefur verið stunduð héðan árum saman, það er loftrýmis- og kafbátaeftirlit. Í lýsingu á verkefnum flugvélanna er notað nýyrðið „fyrirflug“ sem er þýðing á enska orðin interception, það er þegar sendar eru orrustuþotur í veg fyrir ókunnar flugvélar sem ekki hafa tilkynnt flugumferðarstjórn ferðir sínar. Rússneskar hervélar haga sér á þann hátt en frá 2006 hafa um 110 rússneskar flugvélar flogið í átt að Íslandi án þess að fara inn fyrir 12 mílurnar.
Robert O. Work sem ritaði undir yfirlýsinguna með Lilju var hér á landi í byrjun september 2015 og fór þá meðal annars á Keflavíkurflugvöll og kynnti sér aðstæður. Taldi hann að breyta yrði flugskýli 831 vegna nýrra kafbátaleitarflugvéla Bandaríkjamanna. Síðan ákvað bandaríska varnarmálaráðuneytið að ætla fé til breytinganna í fjárlögum fyrir 2017. Nú er síðan ritað undir sameiginlega pólitíska yfirlýsingu til að formfesta þetta eins utanríkisráðherra orðar það og í þágu gagnsæis.
Aukin viðvera orrustu- og kafbátaleitarvéla á Keflavíkurflugvelli leggur auknar skyldur á herðar Landhelgisgæslu Íslands sem annast umsýslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli fyrir utan að annast borgaralegan rekstur ratsjárkerfisins hér á landi.
Í viðtali mínu við Lilju D. Alfreðsdóttur á ÍNN í gær, sem má sjá hér, spurði ég hana um framkvæmd nýju þjóðaröryggisstefnunnar sem nú hefur verið samþykkt hvort utanríkisráðuneytið gegndi öðru hlutverki en á vegum stefnumótunar og sagði hún svo ekki vera. Dagleg framkvæmd er í höndum borgaralegra stofnana innanríkisráðuneytisins. Hefur verið samið um málið milli ráðuneytanna.
Utanríkisráðherra sagði að með yfirlýsingunni með Bandaríkjunum vildi hún auka gegnsæi. Ég tel að utanríkisráðherra og innanríkisráðherra ættu að rita undir sambærilega yfirlýsingu til að taka enn betur af skarið um verkaskiptingu í öryggismálum milli ráðuneyta þeirra og stofnana.