22.6.2016 15:30

Miðvikudagur 22. 06. 16

Í dag ræddi ég við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur lögmann í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi á morgun og forsetakosningarnar hér á landi laugardaginn 25. júní. Þátturinn er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan er hann á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Einnig má sjá hann á tímaflakki Símans.

Á Eyjunni 21. júní eru höfð eftir Guðna Th. Jóhannessyni forsetaframbjóðanda, orð sem féllu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu að morgni þriðjudags 21. júní:

„Fyrir nú utan það að í öllum mínum rannsóknum og skrifum hef ég nú ekkert verið að hlífa Sjálfstæðisflokknum. Hef aldrei verið í pólitík, aldrei bundist neinum flokki nokkrum einustu böndum. Hef skrifað þannig um samtímasögu að það væri nú helst sjálfstæðismenn sem ættu að þykja það sárt.“

Orðin falla vegna umræðna um að sjálfstæðismenn séu bakhjarl framboðs Guðna Th. Þau má skilja á þann veg að til að öðlast framgang innan akademíunnar hafi hann sært sjálfstæðismenn með skrifum sínum en til að verða forseti sæki hann til sjálfstæðismanna enda séu þeir gamlir vinir hans.

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi hefur verið iðnastur við að kenna Guðna Th. við sjálfstæðismenn. Talar Ástþór sig upp í ofsa þegar hann boðar þessa kenning sína eins og hann gerir þegar hann gefur til kynna að með framboði sínu og kjöri geti hann komið í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina.

Í sjónvarpssamtali að kvöldi þriðjudags 21. júní sagði Ástþór að mesta hernaðaruppbygging frá 1941 væri nú á Balkanskaganum í nágrenni við landamæri Rússlands. Stendur þessi vitlausa fullyrðing eftir þáttinn eins og viðtekin staðreynd og einnig hitt að á leiðtogafundi NATO 4. júlí á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna verði tekin einhver ákvörðun varðandi þetta. Mátti ætla af orðum Ástþórs að eitthvað alvarlegt kynni að gerast á hernaðarsviðinu á milli upptökudags samtalsins við hann og útsendingardags.

Að segja Balkanskaga við landamæri Rússlands lýsir mikilli vanþekkingu í landafræði. Að maður sem helgar sig andstöðu við NATO af jafnmiklum ákafa og Ástþór fari rangt með lykildagsetningar varðandi leiðtogafundi bandalagsins vekur undrun.

Í sama pytt datt Ástþór þegar hann sagði að hann læsi það eða heyrði í fjölmiðlum og hjá fræðimönnum víða um heim að Bandaríkjamenn ynnu að því að opna flotastöð í Hvalfirði.

Þegar Ástþór ræðir öryggismál glatar hann trúverðugleikanum.