Þriðjudagur 14. 06. 16
Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur birtir merkilega grein í Morgunblaðinu í dag. Hún er reist á fjögurra ára rannsóknum hans á gögnum um framkvæmd neyðarlaganna frá október 2008, laganna sem skiptu sköpum um skynsamleg viðbrögð við hruni bankanna. Víglundur segir að eðlileg hagsmunagæsla í þágu þjóðarbúsins hafi ráðið þar til 1. febrúar 2009 þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, Samfylkingar og VG, komst til valda með stuðningi Framsóknarflokksins. Straumhvörf hafi orðið 11. febrúar 2009 þegar Indriði H. Þorláksson, sérlegur ráðgjafi og fulltrúi Steingríms J. hóf afskipti af málum og markvisst var gengið á svig við ákvæði neyðarlaganna til að þjóna hagsmunum kröfuhafa.
Í greininni segir Víglundur:
„Af hverju var gripið til þess að ganga gegn neyðarlögunum?
Mitt svar er eftirfarandi: Samfylkingin var með það sem sitt aðalstefnumál og nánast eina að ganga í ESB og taka upp evru. VG var strax reiðubúið eftir langa eyðimerkurgöngu utan ríkisstjórna að kokgleypa andstöðuna við ESB og láta hvað eina yfir sig ganga valdanna vegna.“
Tekið skal undir þessa meginniðurstöðu Víglundar. Höfuðmarkmið andstæðinga Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma var til dæmis að nota ESB-málið til að kljúfa flokkinn. Hinn 14. nóvember 2008 fól Geir H. Haarde flokksformaður Kristjáni Þór Júlíussyni alþingismanni að leiða könnunarstarf meðal sjálfstæðismanna. Að baki rannsókninni bjó krafa Samfylkingarinnar um að sjálfstæðismenn féllu frá andstöðu við ESB-aðild. Niðurstaðan lá fyrir í janúar 2009 – um 70% sjálfstæðismanna lýstu andstöðu við aðild.
Minnihlutastjórninni mistókst að breyta stjórnarskránni þrátt fyrir dygga aðstoð framsóknarmanna. Samfylking og VG fengu meirihluta í kosningum í apríl 2009 og eftir það byrjaði ESB-ballið og öllu var fórnað til að því lyki með aðild – eignarhald á bönkum, Icesave og makríll, ekkert af þessu mátti trufla ballið.
Gangur ESB-málsins er og fórnirnar í þágu aðildar eru svartasti kafli utanríkismálasögu þjóðarinnar, kafli sem er enn óuppgerður.
Víglundur Þorsteinsson hefur lagt verulegan skerf af mörkum til að skýra efni hans. Hann segist enn leita svara við afstöðu Sjálfstæðisflokksins til Icesave og vegna aðstoðar hans „við að smeygja umræðulaust í gegnum þingið því fólskuverki að brjóta neyðarlögin og ákvarðanir FME með því að afhenda kröfuhöfum bankana“.
Þetta mál ber að ræða eins og önnur í aðdraganda komandi þingkosninga.