26.6.2016 11:00

Sunnudagur 26. 06. 16

Forsetakosningar eru sérkennileg lýðræðisleg æfing sem ég hef jafnan leitt hjá mér fyrir utan að fara á kjörstað. Aldrei hefur sá sem ég kaus náð kjöri en alla forsetana hef ég hitt, allt frá Sveini Björnssyni fram á þennan dag. Ég man eftir forsetaskrifstofunni í Alþingishúsinu, þar varð síðar mötuneyti þingsins og loks fundarherbergi forsætisnefndar og ríkisstjórnar kæmi hún saman til fundar í þinghúsinu eins og gerðist á óróatímanum veturinn 2008 til 2009.

Um nokkurt árabil (1974 til 1979) starfaði ég í sama húsi og Kristján Eldjárn, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Forsetaskrifstofan var þá þar og sameiginleg kaffistofa okkar embættismanna forsætisráðuneytisins og forsetaskrifstofunnar. Þá mynduðust vináttubönd sem enn halda. Minningar mínar um Kristján eru góðar, virðing hans fyrir embættinu og ábyrgðarkennd var mikil og trúverðug.

Frú Vigdís var forseti þegar ég settist á þing og í ríkisstjórn. Síðan hef ég kynnst henni á öðrum vettvangi og met einstaka ræktarsemi hennar og hollustu við land og þjóð auk einlægs áhuga hennar á að leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Ég dáist af orku hennar og úthaldi og veit hve mikillar virðingar og vinsemdar hún nýtur langt út fyrir landsteinana.

Um langt árabil sátum við Ólafur Ragnar saman í öryggismálanefnd forsætisráðherra undir formennsku Björgvins heitins Vilmundarsonar bankastjóra. Fundirnir þar voru oft stormasamir en jafnframt skemmtilegir. Björgvin hafði einstakt lag á að halda þráðunum saman á þann veg að nefndin sendi frá sér fjölmargar skýrslur og breytti umræðunum um öryggismál. Samstarfið í öryggismálanefndinni auðveldaði mér að glíma við Ólaf Ragnar sem andstæðing í utanríkismálanefnd alþingis í hörðum átökum um aðildina að EES.

Eftir að Ólafur Ragnar varð forseti 1996 hitti ég hann oft við opinberar athafnir og á ríkisráðsfundum en við áttum aldrei óformleg samskipti og hef ég verið gagnrýninn á ýmis embættisverk hans. Ólafur Ragnar gegndi mikilvægu og jákvæðu pólitísku hlutverki eftir óheillaskrefið sem hann steig með minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms J. 1. febrúar 2009. Axarsköft stjórnarinnar urðu til þess að Ólafi Ragnari tókst að ávinna sér traust þjóðarinnar að nýju.

Ég óska Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju og velfarnaðar í embætti forseta Íslands. Embættið sjálft skapar þeim sem gegnir því myndugleika. Sagan sannar þó að það þarf mun meira til svo að vel fari.