25.6.2016 15:30

Laugardagur 25. 06. 16

Franski stjórnmálafræðingurinn Dominique Moïsi, prófessor í King's College, ritar grein í franska blaðið Les Echos í tilefni af ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB. Hann segir ekki unnt að líta á úrslitin sem slys heldur afleiðingu greinanlegra hörmunga. Hann notar líkingu úr Stjörnustríðinu og segir hrun Berlínarmúrsins árið 1989 hafa verið sigur „björtu hliðar orkunnar“ en þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi sýni „dökku hliðina“. Ferðina úr birtunni inn í myrkrið megi rekja beint til nútíma „svika af hálfu elítanna“.

Undir lok greinarinnar segir Dominique Moïsi að ekki eigi að refsa Bretum fyrir það sem þeir höfðu hugrekki til að gera: að segja nei við Evrópu. Þvert á móti eigi evrópskir ráðamenn að líta í eigin barm. Þeir eigi að spyrja hvers vegna þeir hafi allir misst traust þjóða sinna og hvað þeir geti gert hver um sig og sameiginlega á evrópskum vettvangi til að endurvekja þetta traust. Það yrðu mikil mistök að ætla nú að auka yfirþjóðlegt vald innan Evrópu og bæri ekki vott um annað en algjört skilningsleysi á því sem gerst hefði. Fimmtudagsins 23. júní 2016 ætti ekki að verða minnst í sögunni sem dagsins þegar Bretar hlutu sjálfstæði heldur dagsins þegar Evrópumenn áttuðu sig loks á því, eftir áfallið vegna þróunarinnar í Bretlandi, að þeir ættu ekki annan kost en að hugsa sín eigin mál upp á nýtt.

Að sjálfsögðu er ekki útilokað að evrópskir stjórnmálamenn dragi þennan lærdóm af úrslitunum í Bretlandi. Fátt bendir þó til þess fyrstu sólarhringana eftir þau birtust. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, beitir sér ekki fyrir neinni endurnýjun. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, viðurkennir þó að gerst hafi dramatískir atburðir sem við verði að bregðast. Nú ber þó hæst kröfuna um að Bretar hraði öllum ákvörðunum, hypji sig sem fyrst á brott. Þetta er hrokafull afstaða Brusselmanna í anda þess sem þeir hafa sýnt íslenskum stjórnvöldum með því m. a. að skirrast við að viðurkenna á heiðarlegan hátt afturköllun aðildarumsóknar Íslendinga. Svartasta skjalsins í utanríkissögu íslenska lýðveldisins.

Breska ríkisstjórnin hefur í hendi sér hvenær tveggja ára úrsagnartími samkvæmt 50. grein sáttmála ESB hefst. Átökin milli ráðamanna í London og Brussel eru rétt að hefjast.