Föstudagur 10. 06. 16
Viðtal mitt við Harald Benediktsson, bónda og þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN miðvikudaginn 8. júní er komið á netið og má sjá hér.
James Foggo flotaforingi, yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, ritar grein í Proceedingstímarit Flotastofnunar Bandaríkjanna (U.S. Naval Institute) sem kom út í byrjun júní. Fyrirsögnin er: Fjórða orrustan um Atlantshafið. Þar vísar flotaforinginn til sóknar rússneskra kafbáta út á Norður-Atlantshaf undanfarin misseri. Fyrsta orrustan var í fyrri heimsstyrjöldinni við þýska kafbáta, önnur orrustan var einnig við þýska kafbáta í annarri heimsstyrjöldinni. Þriðja orrustan var reiptogið milli kafbátaflota Bandaríkjamanna og Sovétmanna á höfunum umhverfis Ísland í kalda stríðinu. Á þeim árum tóku menn að ræða um GIUK-hliðið varnarviðbúnað Vesturlanda gegn kafbátum sem náði frá Grænlandi um Ísland til Skotlands. Í grein sinni segir Foggo meðal annars:
„Rússar vilja eignast vígstöðu á höfunum við Evrópu og þeir halda úti herafla utan landamæra Rússlands. Komið hefur verið á fót samtengdu kerfi rússneskra strand-eldflauga, orrustuþotna, loftvarnabúnaðar, herskipa og kafbáta sem ógnar nú öllum flotum á Eystrasalti og auk þess aðildarþjóðum NATO í Litháen, Eistlandi og Lettlandi – stjórnvöld ríkjanna ráða ekki yfir eigin ströndum nema leiðtogar Rússa leyfi þeim það. Komið var á fót svipuðu varnarvirki (anti-access/area-denial, A2/AD) á Svartahafi eftir að rússneskur herafli réðst inn í Úkraínu og tók Krím. Stöðugt fjölgar rússneskum hermönnum í Sýrlandi og Rússar hafa sett upp herstöðvar við Norður-Íshafið, hervætt og gert kröfu til stórs hluta þess í andstöðu við venjur alþjóðalaga. Á þennan hátt og með A2/AD hafa Rússar dregið úr getu okkar til að beita valdi okkar og aukið eigin áhrifamátt utan landamæra sinna.
Rússar ráða nú yfir „stálboga“ frá Norður-Íshafi um Eystrasalt til Svartahafs. Við hann bætast víðtækar og tíðar eftirlitsferðir kafbáta um Norður-Atlantshaf og Noregshaf og herafli í fremstu víglínu í Sýrlandi. Þetta gerir Rússum kleift að skapa hættu fyrir næstum allan herflota NATO. Athafnasvæði flotans er ekki lengur látið í friði. Í fyrsta sinn í nærri 30 ár ber að líta á Rússland sem marktækt og áreitið flotaveldi.“