Mánudagur 27. 06. 16
Tvískinnungurinn innan borgarstjórnar Reykjavíkur undir forsæti Sóleyjar Tómasdóttur (VG) er yfirþyrmandi. Sóley er að vísu á leið úr borgarstjórn af persónulegum aðstæðum. Hún hverfur þaðan í skugga álits umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní 2016 um ráðstöfun hennar á fjármunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar.
Jakob Frímann Magnússon er framkvæmdastjóri samtakanna sem kynna sig á þann veg að þau séu samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni. Samstarfsaðilarnir séu m.a. Reykjavíkurborg, Bílastæðasjóður, Leigufélag Íslands og fjölmargir aðilar sem vilji stuðla að eflingu miðborgarinnar sem miðstöðvar verslunar, þjónustu og menningar.
Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi pírata, sátu í stjórn Bílastæðasjóðs þegar hún tók ákvörðun um stuðning við Miðborgina okkar á þann hátt sem umboðsmaður borgarbúa telur óheimilan, hafi ákvörðun þeirra verið „verulega ámælisverð“ og þau hafi verið „grandsöm um ólögmæti“ þess sem þau gerðu, það er þeim hafi átt að vita að þau brutu gegn lögum með ákvörðun sinni.
Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson sitja í forsætisnefnd borgarstjórnar og bókuðu á fundi hennar 16. júní 2016:
„Ekki er [...] hægt að fallast á að þeir kjörnu fulltrúar sem áttu hlut að ákvarðanatökunni, sem er tímabundin ráðstöfun sem ætlað er að draga úr óvissu í málaflokknum, hafi á nokkurn hátt átt þátt í því að misnota almannafé né hafi farið á svig við siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“
Að kjörnir fulltrúar álykti á þennan hátt um eigið sakleysi þegar álit umboðsmanns á í hlut er einsdæmi og er aðeins til marks um spillta stjórnarhætti.
Á þessum sama forsætisnefndarfundi var lagt fram svar siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa í framhaldi af birtingu Panama-skjalanna. Þeir sem það mál varðar hafa brugðist við með brottför úr borgarstjórn. Borgarfulltrúar sem ráðstafa fé Bílastæðasjóðs á ólögmætan hátt að mati umboðsmanns borgarbúa sitja hins vegar sem fastast og dæma auk þess um eigin sök!
Vegna komu Halldórs Auðar Svanssonar í borgarstjórn var búið til sérstakt stjórnkerfis- og lýðræðisráð svo að honum yrði tryggð formennska í einu af ráðum borgarstjórnar. Ráðið á einfalda stjórnkerfi borgarinnar, efla lýðræði, vanda samráð, auka aðgang að upplýsingum og efla þjónustu við borgarbúa. Að hafa álit umboðsmanns borgarbúa að engu fellur greinilega einnig undir hlutverk formanns stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.