Fimmtudagur 09. 06. 16
Þráteflið um Reykjavíkurflugvöll heldur áfram eftir dóm hæstaréttar í dag um að innan 16 vikna beri ríkinu að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni og endurskoða skipulagsreglur vallarins til samræmis við lokun brautarinnar. Hinn háværi minnihluti sem vill flugvöllinn á brott og beitir til þess einskonar salami-aðferð fagnar þessari niðurstöðu sem reist er á samkomulagi frá október 2013 milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þá innanríkisráðherra, og Jóns Gnarrs, þá borgarstjóra.
Í dómi hæstaréttar segir að sé efni samkomulagsins túlkað sé hafið yfir skynsamlegan vafa að með því hafi innanríkisráðherra gengið undir þá skuldbindingu að tilkynna um lokun flugbrautarinnar samtímis því að nýtt deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið yrði auglýst.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að dómi hæstaréttar verði að sjálfsögðu unað. „Ráðuneytið muni og ákveða hvernig rétt sé að bregðast við niðurstöðunni með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands,“ segir í tilkynningu innanríkisráðuneytisins í tilefni dómsins.
Í frétt Morgunblaðsins frá 30. nóvember 1997 segir:
„Braut 07-25 á Reykjavíkurflugvelli, sú sem liggur í stefnu norðaustur-suðvestur, verður ekki lokað nema hliðstæð flugbraut á Keflavíkurflugvelli fáist opnuð á ný. Hefur málið verið rætt við utanríkisráðherra. Þetta kom fram í máli Guðrúnar Ágústsdóttur, forseta borgarstjórnar, á fundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar.“
Umrædd flugbraut á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið opnuð. Rökin sem lágu til grundvallar 1997 eru greinilega ekki lengur í gildi hjá Reykjavíkurborg. Sérkennilegt er að af hálfu ríkisins skyldi skrifað undir samkomulag við borgina án þess að hafa fyrirvara um lagningu fyrrnefndar brautar á Keflavíkurflugvelli sé hún á annað borð lengur talin nauðsynleg.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á mbl.is að í dómi hæstaréttar felist „fullnaðarsigur í málinu“ um neyðarbrautina. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar alþingis, boðar hins vegar frumvarp á Alþingi í ágúst þess efnis að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði þar áfram í óbreyttu ástandi þar til annað verði ákveðið af alþingi.
Eins og sagði í upphafi: Þráteflinu um Reykjavíkurflugvöll er ekki lokið. Líklegt er að framtíð hans verði átakamál í þingkosningunum í október. Fresturinn sem hæstiréttur gaf innanríkisráðherra rennur út 9. október. Alls ekki er útilokað að fyrir þann tíma samþykki alþingi lög sem hnekkja dóminum „með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands“ eins og segir í tikynningu innanríkisráðuneytisins.