Miðvikudagur 08. 06. 16
Gestur minn á ÍNN í kvöld er Haraldur Benediktsson, bóndi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Við ræðum um búvörusamninginn og ljósleiðaravæðingu í sveitum landsins. Þátturinn frumsýndur kl. 20.00 á rás 20.
Athygli hefur vakið að hvorki Samfylkingin né Viðreisn flagga afstöðu sinni til ESB um þessar mundir. Rót Viðreisnar er þó að finna meðal „sjálfstæðra Evrópusinna“ eins og ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins kölluðu sig fyrir nokkrum árum. Þeim var misboðið þegar flokkurinn samþykkti að ekki skyldi sótt um aðild nema þjóðin vildi það í atkvæðagreiðslu. Nú fylgja þeir hins vegar þessari stefnu og telja sér best sæma að þegja um það. Þeir vita að árétting á hinni nýju stefnu þeirra minnir aðeins á að valdastreituhópur stendur að baki Viðreisn.
Samfylkingin eyðilagði ESB-aðildarmálið fyrir sjálfri sér og skoðanabræðrum undir forystu Jóhönnu og Össurar.
Fyrir utan þetta er staðan þannig innan ESB að þjóðir þurfa að búa við ömurleg skilyrði til að sjá hag sínum betur borgið í sambandinu en utan þess.
Í dag segir Bloomberg-fréttastofan frá niðurstöðu könnunar sem Pew Research Center gerði meðal 10.000 manna í 10 ESB-löndum. Var spurt um afstöðu til ESB. Kemur ekki á óvart að hún var neikvæðust í Grikklandi (71%). Frakkar koma hins vegar næstir en 61% þeirra hafa neikvæða afstöðu til ESB. Frakkar eru neikvæðari í garð ESB en Bretar en þar eru 48% neikvæðir.
BBC segir að í löndunum 10 sýni meðaltalið að naumur meirihluti (51%) sé jákvæður í garð ESB. Mikill meirihluti, 70%, telur ekki heppilegt fyrir ESB að Bretar segi skilið við sambandið.
Á vefsíðu danska ríkisútvarpsins kemur fram að vaxandi fjöldi Dana, 42%, vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Dana að ESB. Þetta er niðurstaða í könnun sem Epinion gerði fyrir DR Nyheder og hefur þeim fjölgað um fimm prósentustig á þremur mánuðum sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina.