13.6.2016 12:00

Mánudagur 13. 06. 16

 

Áformað er að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verði í Danmörku fimmtudaginn 16. júní og fari þaðan til Grænland. Hann hittir Kristian Jensen, utanríkisráðherra Dana, og ræðir við hann um norðurslóðir og loftslagsmál fyrir utan það sem hæst ber í öryggis- og utanríkismálum á líðandi stundu.

Eðlilegt hefði verið að búast við John Kerry í heimsókn hingað á þessu ferðalagi hans. Þrátt fyrir að Kristján Loftsson hafi tilkynnt að hann sé hættur að veiða stórhveli léttir það ekki þeirri kvöð af Kerry að hann megi ekki heimsækja Ísland vegna hvalastefnu íslenskra stjórnvalda, ekki sé nóg að Kristján Loftsson gefi yfirlýsingu um breytta afstöðu til hvalveiða, íslensk stjórnvöld verði einnig að gera það. Í raun er furðulegt að það skuli ekki gert úr því að enginn vill eða hefur burði til að nýta sér opinbera heimild sem er ekki lengur annað en þröskuldur í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Fjöldamorðin sem „einmana úlfur“ framdi í Orlando í Flórída aðfararnótt sunnudagsins 12. júní eru enn ein sorgleg áminningin um varnarleysi almennra borgara gagnvart þeim sem komast yfir vopn til að ná sér niðri á samborgurum sínum af hugmyndafræðilegri eða annarri ástæðu.

Samstarfsmenn fjöldamorðingjans í Orlando höfðu varað vinnuveitendur hans við undarlegri og hættulegri hegðun hans en ekkert var gert, meðal annars vegna þess að vinnuveitandinn vildi ekki sæta ámæli fyrir að finna að framkomu múslima, sagði blaðamaður í Flórída við BBC World Service í morgun.

Í franska blaðinu Le Figaro segir í morgun sagt að þrátt fyrir hryðjuverkin í Boston og San Bernardino líti Bandaríkjamenn ekki hættuna af íslamistum jafnalvarlegum augum og Evrópumenn. Spáir blaðið því að allt muni þetta breytast eftir fjöldamorðin í Orlando. Minnt er á að Barack Obama hafi verið tregur til að tengja íslam og hryðjuverk. Ólíklega taki Hillary Clinton sama pól í hæðina. Hún muni taka skýrari afstöðu, ekki sætta sig við „leadership from behind“ í anda Obama. Ekki þarf að spyrja að Donald Trump. Hann krefst afsagnar Obama vegna þess að hann notaði ekki orðin „radical islam“ í ávarpi sínu til þjóðarinnar eftir voðaverkið í Orlando.