Miðvikudagur 15. 06. 16
Í kvöld verður viðtal mitt við Davíð Oddsson forsetaframbjóðanda sýnt á ÍNN. Frumsýningin er kl. 20.00 á rás 20 og síðan verður samtalið sýnt á tveggja tíma festi til 18.00 á morgun. Eftir frumsýningu má ná því hvenær sem er á tímaflakki Símans.
Nú er vika þar til Bretar greiða atkvæði um aðild að ESB. Undanfarna daga hafa úrsagnarsinnar sótt í sig veðrið og mælst stærsti hópurinn. Er ekki að efa að báðar fylkingar sæki fram af miklum þunga komandi daga. Aðildarsinninn David Cameron forsætisráðherra hefur oftar en einu sinni sannað að hann berst af mikilli hörku. Hið sama er að segja um úrsagnarsinnan og íhaldsmanninn Boris Johnson. Hann gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Verði úrsögn samþykkt situr David Cameron ekki lengi í embætti sínu, hvorki sem flokksleiðtogi né forsætisráðherra. Hvort Boris Johnson kemur í hans stað veit enginn. Vafalaust verður leitað að einhverjum sem hefur borið kápuna á báðum öxlum. Hvort tekst að sameina Íhaldsflokkinn eftir hrikaleg ESB-átökin kemur í ljós. Raunar er líklegt að Cameron fari fljótlega frá völdum hvort sem málstaður hans sigrar eða ekki í atkvæðagreiðslunni.
Atkvæðagreiðslan 23. júní í Bretlandi vekur fleiri spurningar en svör hvernig sem á málið er litið. Hræðsluáróður hefur meira einkennt málflutning aðildar- en úrsagnarsinna. Ekki síst áróður um hörmungar í efnahagsmálum fari Bretar úr ESB.
Á sínum tíma reyndi Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að fá Svía til að samþykkja upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann tapaði. Eftir atkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum á blaðamannafundi. Hann var spurður: Hvenær hrynur efhagur Svíþjóðar eins og þú spáðir að gerðist án evrunnar? Persson svaraði: Sagði ég þetta? Ég man ekki eftir því.
Þegar elíta stjórnmála, fjármála og fjölmiðla styður eitthvert mál og það tapast er lítið lagt á sig til að brjóta það til mergjar – auðveldara er að sópa erfiðum úrslitum undir teppið og láta eins og ekkert hafi í skorist.