7.6.2016 17:30

Þriðjudagur 07. 06. 16

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, hefur árum saman verið samviska Samfylkingarinnar. Hún hefur skotið skynsemdarorðum að forystumönnum flokksins í einkasamtölum og skrifað opinberlega þeim til hughreystingar þegar á móti blæs. Nú þykir henni hins vegar nóg komið eins og sjá má leiðara hennar í DV í dag, 7. júní. Ástæðan er kjör Oddnýjar Harðardóttur til formennsku í flokknum.

Kolbrún segir:

„Oddný Harðardóttir er talin líkleg til að leiða flokkinn til vinstri í stað þess að sækja inn á miðjuna, eins og fyrrverandi formaður lagði áherslu á að gert yrði. Með vinstri sveiflu væri Samfylkingin að kasta frá sér tækifærum og þar með væri hún einnig að hrekja frá sér hægri kratana, sem hafa þó kannski aldrei verið verulega velkomnir í Samfylkinguna. Hin nöturlega staðreynd er sú að Samfylkingin er orðin að litlum kredduflokki sem rúmar ekki nema suma.

Líklegast er að í vandræðum sínum fari Samfylkingin í betlileiðangur til Vinstri grænna og hugsanlega Pírata um kosningabandalag fyrir næstu kosningar. Flokkurinn er orðinn svo aumur að hann getur ekki lengur staðið einn.“

Miðjan sem Kolbrún talar um táknar einhvers konar Blairisma hjá jafnaðarmönnum í Evrópu. Hann á hvergi upp á pallborðið í neinum jafnaðarmannaflokki, hvarvetna gæla þeir sem hafa völd við einhvers konar blöndu af blairisma og sósíalisma. Þeir vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara og eru franskir jafnaðarmenn undir forystu Feançois Hollandes skýrasta dæmið um það. Hann nýtur nú 4% stuðnings sem forseti Frakklands. Samfylkingin lafir þó í 7 til 8%.

Auðvitað er það rétt hjá Kolbrúnu að vilji menn vinstrimennsku hér er skynsamlegast að kjósa VG og gefa Samfylkingunni frí. Vegna þess hve Samfylkingin hefur verið laus í rásinni og leyft ESB að vera einskonar akkeri til að hafa einhvern fastan punkt kann hópur kjósenda flokksins að snúa sér til Viðreisnar í von um pólitískt afdrep. viðreisnarmenn munu hins vegar brátt átta sig á að miðjumoð á borð við það sem þeir hafa lagt fyrir kjósendur á ekki hljómgrunn hér frekar en annars staðar.

Þótt viðreisnarmenn hafi yfirgefið fyrri flokka á öfugum forsendum við það sem félagar í Alternative für Deutschland gerðu í Þýskalandi skyldi enginn útiloka að Viðreisn reyni að skipa sér sess hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þegar yfir lýkur.