Sunnudagur 19. 06. 16
Á vefsíðunni Telegraph.co.uk er fjallað á skemmtilegan hátt um EM 2016. Þar segir í dag að nú hafi öll liðin leikið tvisvar og er gerð úttekt á þeim í ljósi þess. Um íslenska liðið segir:
„Iceland are incredibly well drilled, extremely well organised and know how to defend - in a tournament with no clear favourite, might the efficient Icelanders stand an outside chance? Are they this year's Greece?“
Þessi ummæli eru í samræmi við annað jákvætt sem sagt hefur verið um íslenska liðið á þessari vefsíðu. Þar hefur Ronaldo til dæmis verið tekinn til bæna fyrir svigurmælin í garð íslenska liðsins eftir leikinn 14. júní. Segir Telegraph að vegna orðanna um Ísland sé nú hlegið að Ronaldo eftir 0:0 leik Portúgala gegn Austurríkismönnum þar sem hann hafi ekki einu sinni getað skorað mark úr vítaspyrnu.
Til hvers er vísað í tilvitnuninni hér að ofan þegar spurt er hvort Íslendingar séu Grikkir ársins í ár – það er EM 2016? Jú, vísað er til þess stórviðburðar í knattspyrnusögu Grikkja þegar þeir urðu öllum að óvörum Evrópumeistarar árið 2004. Þá tóku þeir í annað sinn þátt í Evrópumótinu og þótti engum þeir sigurstranglegir. Þeir sigruðu þó Frakka sem komu sem Evrópumeistarar til mótsins og einnig Portúgala, gestgjafa keppninnar, tvisvar, í upphafs- og lokaleikjum mótsins.
Það er sem sagt ekki leiðum að líkjast þegar höfð eru þessi orð um íslenska liðið. Áfram Ísland!