19.4.2009

Sunnudagur, 19. 04. 09.

Í dag sendi ég pistil á síðuna amx.is og hann má lesa hér. Þar bendi ég á þá staðreynd, að Ísland gerist ekki aðili að Evrópusambandinu nema Sjálfstæðisflokkurinn styðji þá ákvörðun. Þetta verði þeir, sem auglýsa undir merkjum sammala.is, að skilja.

Í fyrradag, 17. apríl, var heimsfrumsýning á nýrri mynd með Russel Crowe en hún heitir á ensku State of Play og segir frá blaðamanni í Washington, sem fæst við að skrifa um mál, þar sem tengjast stjórnmál, öryggismál, ástarmál og fjármál auk þess sem kynntir eru innviðir blaðamennskunnar. 17. apríl var myndin frumsýnd í fimm löndum: Bandaríkjunum, Íslandi, Kanada, Spáni og Tyrklandi. Ég mæli með myndinni.

Lögregla og landhelgisgæsla vinna nú að því að upplýsa nýtt skútusmyglmál, en svo virðist sem skúta hafi legið undan Papey en slöngu-gúmbátur hafi verið nýttur til að selflytja fíkniefni í land á Djúpavogi. Árvekni og viðbúnaður gegn fíkniefnasmygli hefur aukist og samvinna löggæslu og tollgæslu er markvissari en áður.

Lögregla tók skynsamlega á hústökuliði við Vatnsstíg á dögunum.

Ég vara eindregið við því, að íslensk stjórnvöld taki aðra afstöðu til þess að senda hælisleitendur til Grikklands samkvæm Dublin-reglum en önnur ríki, sem starfa samkvæmt reglunum.