29.4.2009

Miðvikudagur, 29. 04. 09.

Furðulegt er að hlusta á ummæli flokksformannanna, sem eru að mynda stjórn, að það liggi ekkert á að mynda stjórnina, af því að það sitji stjórn og ráðherrarnir í henni hafi svo mikið að gera, að ekki sé tími til að mynda nýja stjórn. Hvers vegna eru þau þá að reyna að mynda stjórn? Af hverju sitja flokkarnir ekki einfaldlega áfram í stjórn og snúa sér heilshugar að því að leysa úr hinum brýna vanda atvinnulífs og heimila? Hvers vegna er hlaupið úr stjórnarráðinu í Norræna húsið? Hvers vegna eru settir á laggirnar hópar um hitt og þetta? Hvers vegna er látið, eins og allt muni þetta taka langan tíma? Ástæðan er auðvitað sú, að stjórnarflokkana greinir á um grundvallarmál og  þeir vilja breiða yfir ágreininginn með hópum og innantómum frösum.  Fjölmiðlaliðið tekur einfaldlega þátt í biðleikjunum.

Ég ræddi í gær við forstjóra stórfyrirtækis, sem er í öflugum rekstri og vill ganga frá málum við viðskiptabanka sinn, svo að línur í rekstrinum skýrist. Bankinn hefur ekki svarað erindi fyrirtækisins í níu vikur, lætur einfaldlega ekkert frá sér heyra.  Þetta er til marks um rekstur og viðbrögð banka undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í raun er ekki neitt að gerast neins staðar, þar sem ríkisstjórnin er með puttana.

Ef ekki er tími til að mynda ríkisstjórn, vegna þess að ráðherrarnir hafa svo mikið að gera á öðrum vígstöðvum, hafa þeir svo mikið að gera við að mynda ríkisstjórn, þegar beðið er um ákvarðanir, að þeir geta ekki sinnt neinu, sem snertir heimili og fyrirtæki.

Evrópusérfræðingar háskólans á Bifröst og háskólans í Reykjavík eru komnir í hár saman vegna ágreinings um, hvort ríkisstjórn þurfi að standa að aðildarumsókn gagnvart Evrópusambandinu eða ekki. Þetta sýnir, hve illa er komið fyrir stjórnarsamstarfinu. Að sjálfsögðu verður ríkisstjórn að standa að baki slíkri umsókn. Andstaða einstakra sænskra ráðherra við aðild Svía sýnir muninn á starfsháttum sænsku ríkisstjórnarinnar, sem starfar eins og fjölskipað stjórnvald, og hinnar íslensku, þar sem hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki en um meiriháttar ákvarðanir verður auðvitað að ríkja samstaða milli stjórnarflokka.