12.4.2009

Sunnudagur, 12. 04. 09.

Í dag skrifaði ég pistil um heiður Sjálfstæðisflokksins og ofurstyrkina og má lesa hann hér. Ég ætla því ekki að ræða það mál frekar að sinni. Þó get ég ekki stillt mig um að segja, að verið er að elta villuljós í málinu, ef spurningarnar snúast um hlut Kjartans Gunnarssonar að því, eftir að hann var hættur sem framkvæmdastjóri flokksins eða hvernig samskiptum okkar Agnesar Bragadóttur var háttað á Morgunblaðinu, þegar ég var þar aðstoðarritstjóri fyrir tæpum 20 árum. Í báðum tilvikum hefur þetta ljós verið kveikt af Sveini Andra Sveinssyni, hrl., sem gengur fram fyrir skjöldu til að verja málstað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Með því er greinilega ætlunin að draga athygli frá kjarna málsins.