26.4.2009

Að loknum kosningum.

 

 

Kosningaúrslit liggja fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þann skell, sem við var búist, tapaði 9 þingmönnum og er nú með minnsta fylgi í sögu sinni, tæp 24%. Með þessu nær flokkurinn landi eftir hremmingar undanfarinna mánaða. Bjarni Benediktsson, nýkjörinn formaður flokksins, segir réttilega, að í raun taki hann við forystu flokksins í dag, þótt hann hafi verið kjörinn til þess á landsfundi 29. mars. Til þessa hefur hann og flokkurinn allur leitast við að standast þunga flóðbylgjunnar, án þess að brotna. Þótt flokkurinn komi laskaður í land, er hann hvorki brotinn né úr leik eftir áraunina. Hann hefur axlað hina lýðræðislegu ábyrgð og í krafti lýðræðislegra leikreglna sækir hann fram að nýju.

Stjórnmálasagan hér og erlendis geymir svo mörg dæmi um skjóta endurreisn flokka eftir mikinn atkvæðamissi, að sjálfstæðismenn þurfa ekki að örvænta, haldi þeir rétt á málum. Greini stöðu sína rétt og byggi endurkomuna á slíkri greiningu og þeim ákvörðunum, sem hún krefst, þótt erfiðar kunni að reynast.

Sé litið á gengi flokksins með vísan til skoðanakannana, tók hann að rétta úr kútnum, þegar dró að páskum, en rétt fyrir þá var upplýst um hina óeðlilega háu styrki til flokksins frá FL Group og Landsbanka Íslands undir árslok 2006. Þrátt fyrir skjót og margþætt viðbrögð flokksformannsins, kom allt fyrir ekki, fylgið dvínaði á nýjan leik.

Að skýra lítið fylgi flokksins með vísan til þess, að hann hafi staðið gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, er veruleikaflótti. Staðreynd er, að aðildarumræðan kann að hafa dregið úr fylgistapi Samfylkingarinnar, en hún jók ekki fylgi hennar á þann veg, sem ætla mætti miðað við bægslagang aðildarsinna. Sigurvegari kosninganna, vinstri grænir, voru engir talsmenn ESB-aðildar, nema síður væri. Sömu sögu er að segja um hinn sigurvegarann, Borgarahreyfinguna, hún er ekki heldur málsvari aðildar Íslands að ESB.

Auglýsingaherferðin undir kjörorðinu sammala.is, sem ætlað var að efla stuðning við málstað ESB-aðildarsinna, olli umróti innan Sjálfstæðisflokksins og spillti andrúmslofti innan hans á viðkæmu stigi í kosningabaráttunni.  Með aðgerðinni jókst tortryggni milli sjálfstæðismanna í málinu, en almennt álitu flokksmenn, að náðst hefði sátt á flokksvettvangi um Evrópumálin á landsfundinum.

Augljóst er, að „hinar talandi stéttir“ halda áfram að láta eins og ESB-aðild sé það, sem nú eigi öllu að bjarga, þar til þjóðin sjálf tekur málið af dagskrá stjórnmálanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.  

Eitt af því, sem kom mér á óvart í aðdraganda kosninganna, var óvild margra fastra dálkahöfunda eða blaðamanna Morgunblaðsins í garð Sjálfstæðisflokksins. Lögðu þeir lykkju á leið sína til að hallmæla flokknum. Ég nefni þrjú dæmi máli mínu til staðfestingar.

Dæmi 1.:

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður, ritar í sunnudagsblað Morgunblaðsins  26. apríl, birtist fyrir lokun kjörstaða 25. apríl:

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var eitt af stóru feilsporum flokksins. Þar var svo mikið lagt upp úr að halda ánægðri litlu harðlínuklíkunni sem óttast Evrópusambandið, að Evrópusinnar flokksins þögguðu niður í sjálfum sér. Afleiðingin var sú að þeir sátu uppi með nagandi samviskubit, eins og hendir þá sem svíkja sjálfan sig, Til að svæfa samviskubitið og ná aftur Evrópusambandssinnum, sem flokkurinn hafði hrakið frá sér, kokkuðu þessir sömu menn upp nýja stefnu um upptöku evru í samráði við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Þar gleymdist að gera ráð fyrir því að einhver mjög svo þreytandi fjölmiðlamaður fengi þá hugdettu að spyrja menn innan Evrópusambandsins hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákvörðunarrétt innan sambandsins. Svo gerðu fjölmiðlamenn vitanlega einmitt þetta og fengu svarið: Nei, ekki hægt. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins fóru í gríðarlega fýlu og fóru mörgum orðum um þann dæmigerða hroka embættismanna í Evrópusambandinu að taka ekki mark á Sjálfstæðisflokknum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skildu heldur ekkert í því af hverju þjóðin fylltist ekki miklum fögnuði þegar þeir stóðu fyrir nær endalausu málþófi á Alþingi rétt fyrir kosningar. Þar töluðu þeir tímunum saman en enginn aðrir en þeir botnuðu í því hverju þeir voru að mótmæla. Það er leitt að hafa svo mikinn tíma til að tala en gera það af slíkum vanmætti að engin skilaboð komast áleiðis.

Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka rækilega til heima hjá sér og hugsa upp á nýtt. Og láta af fýluköstunum. Auðmýkt myndi heldur ekki skaða - svo ekki sé nú talað um einlæga iðrun.“

Takið eftir því í hvaða tóni talað er til sjálfstæðismanna og enn höggvið í þann knérunn, að á landsfundi hafi setið viljalaus verkfæri án annarrar skoðunar en þeirrar, sem að þeim var haldið af „lítilli harðlínuklíku“ og síðan tekur ESB-aðildarsinninn til við að ræða um aðildina eins og menn ræða almennt um trúarbrögð,  það er hinn nagandi ótta við að hafa farið út fyrir einstigi borðorðanna og vonina um syndaaflausn með iðrun og yfirbót. Og Kolbrún fellur í  gamalkunnan pytt aðildarsinna,  að telja það hámark óskammfeilninnar að bugta sig ekki fyrir röddinni frá Brussel.

Ég tel, að fjölmargir hafi áttað sig á því, hvað við þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðum með því að hindra framgang illa ígrundaðra breytinga á stjórnarskránni, þótt Kolbrún hafi greinilega talið það utan eigin áhugasviðs að kynna sér málið.

Ég vil að lokum snúa lokaorðum Kolbrúnar upp á hana sjálfa og vona, að nýjum eigendum Morgunblaðsins takist að afmá fýluna af blaðinu, svo að gamlir og traustir lesendur þess líti ekki þannig á, að þeir fái gallaða vöru, þegar blaðið berst inn á heimili þeirra.

Dæmi 2.

Dagur Gunnarsson ritar um fjölmiðla í Lesbók Morgunblaðsins 25. apríl, kjördag:

„Fregnir af hinum misvitru smyglurum sem töldu sig geta trítlað í land í fámennu plássi austur á fjörðum í síðustu viku vetrar með hundrað kíló af fíkniefnum án þess að nokkur tæki eftir því rak á fjörur fjölmiðla um leið og hin nýja og lítt ígrundaða stefna Sjálfstæðisflokksins í gjaldmiðilsmálum landsmanna. Illugi Gunnarsson tilkynnti í lok síðustu viku á fundi um Evrópuskýrslu síðustu ríkisstjórnar að réttast væri fyrir Íslendinga að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa milligöngu um málið og að þannig gætum við tekið upp evru án aðildar að Evrópusambandinu. Í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag birtist síðan heilsíðuauglýsing þar sem formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, telur þetta vera „trúverðuga leið að upptöku evru“. Daginn eftir var þessi hugmynd skotin í kaf eins og hver önnur smyglskúta í Speglinum, fréttaskýringaþætti RÚV. Percy Westerlund, sendiherra ESB í málefnum Noregs og Íslands, sagði yfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins á misskilningi byggðar. Hann sagði að stefna ESB væri skýr og að ekki kæmi til greina að leyfa ríki sem hefði ekki aðild að taka upp evru og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði í þokkabót ekkert með málið að gera. Þetta var ennfremur staðfest af Joaquín Almunia, peninga- og efnahagsmálastjóra ESB….“

Þarna er dálkur um fjölmiðla notaður til þess að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn og taka undir með Percy Westerlund og látið eins og ekkert sé sjálfsagðara en erlendur sendiherra skipti sér beint af kosningabaráttunni. Hvers vegna ætli Dagur hafi látið hjá líða að geta þess, að talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins brást við á allt annan veg en Westerlund og útilokaði að sjálfsögðu ekki neitt í viðræðum við íslensk stjórnvöld um gjaldmiðilsmál.?  Merkilegt er, að þessi fjölmiðlarýnir Morgunblaðsins lét þess ógetið, að föstudaginn 24. apríl birtist lítil grein í Fréttablaðinu eftir Manuel Hinds, ráðgjafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, sem sagði:

„Evrópusambandið kallar það vitleysu að vilja taka upp evru án undangenginni aðild að ESB. Sú fullyrðing er bull. Evran er á ábyrgð Seðlabanka Evrópu, en þeir sem hafa hana undir höndum geta notað hana til að greiða skuldbindingar og geyma verðmæti eins og þeim hentar, bæði alþjóðlega og innanlands. Ísland þarf ekki leyfi frá ESB til að taka upp evru. Því fyrr sem Ísland gerir það þeim mun betra.“

Viðbrögð þessara tveggja föstu dálkahöfunda Morgunblaðsins endurspegla óvild blaðsins í garð allrar viðleitni til að ræða gjaldmiðilsbreytingu með vísan til annars en aðildar að Evrópusambandinu.

Dæmi 3.

Bergur Ebbi Benediktsson ritar reglulega í skoðanadálk við hlið leiðara Morgunblaðsins. Föstudaginn 24. apríl snerust skrif hans um kosningaauglýsingar og voru lokaorðin þessi:

„Mest vorkenni ég samt sjálfstæðismönnum. Þeir eru með formann sem hefði verið frábær í góðærisauglýsingar. Kjálkastóran Garðabæjarnagla sem hefði tekið sig vel út með labrador í flæðarmálinu. En ekki örvænta, Bjarni, og hafðu hrukkukremið klárt. Andlit þitt mun koma að góðum notum í næsta góðæri árið 2030.“

Hinn 17. apríl skrifaði Bergur Ebbi á sama stað:

„Sjálfstæðismenn! Þið sem pukrist endalaust með ykkar eignatengsl og brask. Loftið um. Það sem þið haldið svo sterkt í er hvort sem er hrunið. Þið þurfið ekki lengur að vera hræddir um að Steini í Kók eða Palli í Pepsí móðgist þó þið segið frá peningagjöfum þeirra. Þessir menn eru hvort eð er flestir gjaldþrota og varla meiri peninga að vænta úr þeirra ranni. Leysið frá skjóðunni. Og í guðanna bænum lýsið skoðun ykkar á ofríkinu. Hættið að hlæja taugaveikluðum hlátri þó að Davíð Oddsson segi fimmaurabrandara. Hlæið frekar að lukkutröllslegu hári hans. Ljósin eru jú slökkt og þið eruð hvort eð er álíka merkilegur pappír og Nígeríusvindlarar þessa stundina. Þið hafið engu að tapa.“

Athyglisvert er að sjá, hve þessi stjórnmálaskrif mótast af útliti þeirra manna, sem að er fundið. Er stjórnmálabaráttan í raun að færast á þetta stig samhliða því, sem látið er í veðri vaka, að besta leiðin til að bjarga þjóðinni sé að leyfa sér ekki að hafa aðra skoðun en þá, sem berst frá Brussel?

Ef litið er til kosningaúrslitanna nú og vorið 2007, er ljóst, að meiri og hraðari endurnýjun hefur orðið á fjölda þingmanna en nokkru sinni fyrr. Við þau tímamót er dapurlegt, að fjölmiðlar eru hættir að flytja þingfréttir í þeim búningi, að þær gefi raunsanna mynd af því, sem gerist á alþingi. Aðhald að stjórnmálamönnum felst ekki í því lengur að rökræða skoðanir þeirra og viðhorf heldur byggist á tali um útlit þeirra eða hvort þeir flytji of margar ræður eða of langar og síðan er sagt, að enginn hafi áhuga á því, sem þeir voru að segja.

Hnignun þingfréttamennsku er áhyggjuefni á tímum sem þessum. Nauðsynlegt er að kynna þjóðinni, hvað nýir þingmenn hafa til mála að leggja og eins skýra rækilega efni frumvarpa, þegar ríkisvaldið kemur að fjármálalífi þjóðarinnar og atvinnurekstri á allt annan hátt en gert hefur verið síðustu áratugi.

Haldi fjölmiðlar og álitsgjafar fast í þá skoðun, að nýafstaðnar kosningar hafi markað slík þáttaskil í umræðum  um Evrópumál,  að nú verði ekki undan því vikist að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eru úrslit kosninganna einfaldlega greind á rangan hátt. Hitt er hins vegar staðreynd, að Samfylkingin lofaði kjósendum sínum, að hún mundi koma Íslandi í Evrópusambandið, hvað sem það kostaði. Nú er það hennar að efna þetta kosningaloforð sitt. Hún gerir það ekki nema með stuðningi við málið á alþingi og síðan meðal þjóðarinnar í fleiri en einni atkvæðagreiðslu auk breytingar á stjórnarskránni með þingrofi og nýjum kosningum. Er ekki annað þarfara fyrir nýkjörna alþingismenn að gera?