10.4.2009

Föstudagur, 10. 04. 09.

Veðurblíða var mikil í Fljótshlíðinni, Eyjafjallajökull skartaði sínu fegursta auk þess sem sást inn á Mýrdalsjökul og Þríhyrningur dró úr norðan áttinni.

Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér störfum. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hvatti þá, sem leituðu eftir styrkjum frá FL Group og Landsbanka Íslands til að segja til nafns, hann sagðist vita, hver ætti þar hlut að máli.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman, sem er líklega einsdæmi föstudaginn langa, og lýsti stuðningi við Bjarna Benediktsson, formann flokksins, og veitti honum umboð til að grípa til þess, sem hann teldi nauðsynlegt til að vinna flokkinn frá núverandi stöðu.