13.4.2009

Mánudagur, 13. 04. 09.

Umræður um fjármál stjórnmálaflokkanna halda áfram. Í dag hefur komið fram á visir.is, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson gengu bæði sem formenn Samfylkingarinnar til fjársterkra aðila og fyrirtækja og óskuðu eftir fjárstuðningi við flokkinn. Þetta er fjáröflunarleið, sem aldrei hefur tíðkast hjá Sjálfstæðisflokknum, enda er hún í raun mun ámælisverðari heldur en hve mikið fé safnast í þágu flokkanna.

Svandís Svavarsdóttir skipar efsta sæti vinstri-grænna hér í Reykjavík suður. Hún hefur nú látið í veðri vaka, að keppinautur sinn í efsta sæti sjálfstæðismanna í Reykjavík suður, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi þegið mútur í tengslum við REI-hneykslið. Þessar alvarlegu ásakanir lúta að því, að lög hafi verið brotin.

Kosningabaráttan hér í kjördæminu er að taka á sig nýstárlegan svip. Spyrja má, hvort ásakanir Svandísar í garð Guðlaugs Þórs falli ekki frekar undir dómara en okkur háttvirta kjósendur.