11.4.2009

Laugardagur, 11. 04. 09.

Fjölmenn útför var frá kirkjunni að Breiðabólstað í Fljótshlíð í fögru veðri, þegar Jón Kristinsson, bóndi í Lambey, landsfrægur myndlistamaður, var jarðsettur af séra Önundi Björnssyni. Síðan var boðið til Goðalands, þar sem hangikjöt var á borðum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur myndina af ofurstyrkjum FL Group og LÍ til flokksins vera orðna svo skýra, að unnt sé að átta sig til fullnustu á málinu.  Þetta sagði hann í beinni útsendingu á öllum fréttastöðvum í kvöld. Þrátt fyrir framvindu málsins í dag, þar sem tveir menn, Þorsteinn M. Jónsson,  þáv. varaformaður stjórnar FL Group, og Steinþór Gunnarsson, þáv. yfirmaður verðbréfamála hjá Landsbanka Íslands, lýstu yfir að hafa rekið erindi fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, alþingismann, við fjáröflun gagnvart FL og LÍ, birti sjónvarp ríkisins samtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, sem var greinilega tekið upp fyrir þessa atburðarás alla. Dómar prófessorsins og niðurstöður sönnuðu fallvaltleika skyndiálita af þessu tagi.

 Í fréttum Stöðvar 2 var sagt, að Guðlaugur Þór  teldi, að ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins hefði unnið gegn sér. Lýsti hann þessu þannig:

„Það að láta Agnesi Bragadóttur fjalla um mín mál er álíka hlutlaust og ég myndi fjalla um málefni Ögmundar Jónassonar... Ég held að það þekki það allir hún hefur ekki farið dult með sínar pólitísku skoðanir og ég hef helst ekki viljað ræða það."

Í sömu andrá og þetta var sagt, var sýnd mynd af mér í ræðustól á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og tók Stöð 2 þannig undir þann áróður Sveins Andra Sveinssonar, hrl., málsvara Guðlaugs Þórs, að Agnes væri marklaus, af því að við hefðum starfað saman á Morgunblaðinu  fyrir tæpum tveimur áratugum! Hvers vegna ætli Sveinn Andri hafi ekki nefnt Ólaf Stephensen, ritstjóra Morgunblaðsins, til sögunnar eða birt mynd af honum?


 

Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2 tók viðtal við Bjarna Benediktsson í beinni útsendingu og er það endursagt á þennan veg á visir.is:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að bæði Kjartan Gunnarsson og Andri Óttarsson, fyrrum framkvæmdastjórar flokksins, hafi vitað af risastyrkjum sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 2006 skömmu áður en lög um hámarksframlög til stjórnmálaflokka tóku gildi. Þá styrktu FL Group flokkinn um 30 milljónir króna og Landsbankinn fyrst um 5 milljónir og síðar á árinu 25 milljónir.“

Þetta er oftúlkun á orðum Bjarna en fellur vel að þeirri skoðun Heimis Más, að spurning sé, hvort Kjartan eigi að segja sig úr miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem Bjarni svaraði neitandi.

Á mbl.is er sagt frá þessum kafla í viðtali Heimis Más við Bjarna á þennan veg;

„Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum að hann hafi ekkert vitað um málið. Þegar borið var undir Bjarna þær upplýsingar fréttastofu Stöðvar 2 að hún vissi til þess að Kjartan hefði vitað um styrkina sagði Bjarni best að málið væri borið undir Kjartan beint og milliliðalaust.

„Fyrir mér er það augljóst að þeir sem voru hér á skrifstofunni og gegndu æðstu embættisstörfum höfðu vitneskju um að styrkur hafði borist. Það sem að máli skiptir er hins vegar ekki þetta, heldur hitt hver tekur ákvörðun um að færa þær upphæðir í bækur flokksins. Ég tel að báðir framkvæmdastjórarnir, Kjartan sem var þá að ljúka störfum, og Andri, sem var að hefja störf, hafi haft vitneskju eftir að styrkurinn kom í hús. En fyrir mér skiptir það í sjálfu sér engu máli. Það sem skiptir máli er að formaður flokksins tók ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku,“ sagði Bjarni.“

Bjarni segir það eitt í þessu viðtali, að Andri og Kjartan hafi vitað um styrkinn eftir að hann „kom í hús“ þeir hafi með öðrum orðum ekki komið að því að afla hans. Orð Bjarna tímasetja ekki, hvenær þessi vitneskja lá fyrir, en það skiptir ekki máli fyrir Heimi Má. Spurning hans um setu Kjartans í miðstjórninni gefur vísbendingu um, að hann hafi myndað sér skoðun Kjartani og Sjálfstæðisflokknum í óhag.

 Es. miðvikudag 21. apríl vakti Heimir Már Sigurðsson athygli mína á því, að hann hefði aldrei minnst á miðstjórnarsetu Kjartans Gunnarssonar. Við nánari athugun mína kom í ljós, að Aðalbjörn Sigurðsson frá RÚV gerði það. Hef ég beðið Heimi Má velvirðingar.