23.4.2009

Fimmtudagur, 23. 04. 09.

Gleðilegt sumar!

Nú liggur fyrir svart á hvítu frá breska Evrópumálaráðherranum, að Bretar munu óska eftir fiskveiðiréttindum á Íslandsmiðum, ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið. Bretar telja sig hafa sterka samningsstöðu í krafti Icesave-reikninga. Þá er einnig ljóst, að undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur utanríkisráðuneytið með leynd undirbúið aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Um þetta ræði ég í pistli á vefsíðu minni í dag.

Að þetta skuli ekki verða að stórmáli á lokadögum kosningabaráttunnar sýnir aðeins, hve aumir fjölmiðlarnir eru. ESB-blöðin vilja að sjálfsögðu sem minnst úr þessu gera og ríkisfjölmiðlarnir eru með hugann við styrkveitingar til stjórnmálamanna vegna prófkjara fyrir þremur árum. Það er glimt í fréttum Stöðvar 2 eins og sýndi sig í kvöld, þegar Steingrímur J. var þráspurður um afstöðu vinstri-grænna til olíuvinnslu á Drekasvæðinu, sem Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, vill ekki. Steingrímur J. gaf of tvíræð svör til að verða trúverðugur og síðan lét hann fjármálaráðuneytið senda út tilkynningu til að kveða niður orðróm vegna ummæla hans sjálfs á fundi á Egilsstöðum um Icelandair. Frægt var á sinni tíð, þegar frambjóðandi sagði: Skrifaðu flugvöll! Steingrímur J. hrópaði: Skrifaðu flugfélag!

Óskiljanlegt er stjórnmálamönnum og líklega fleirum, hvað fjölmiðlamenn telja, að skipti mestu rétt fyrir kosningar. Vorið 2007 gerði fréttastofa sjónvarps ríkisins mikið veður út af því, að staða, sem ég veitti, hefði aðeins verið auglýst í Lögbirtingablaðinu. Eltist fréttastofan við mig út af þessu og var látið sem um eitthvert hneyksli hefði verið að ræða. Sé ætlunin að setja stjórnmálamenn út af laginu, gildir hið sama um þá og annað fólk, að þeir verða stundum orðlausir af undrun vegna þess, sem um er spurt. Gagnvart hlustendum eða áhorfendum kann þetta að taka á sig þá mynd, að stjórnmálamaðurinn geti ekki eða þori jafnvel ekki að svara. Fréttamaðurinn lítur á það sem afrek út af fyrir sig!