22.4.2009

Miðvikudagur, 22. 04. 09.

Á göngu um Öskjuhlíðina sá ég fyrstu lóur vorsins þar. Þennan sama dag árið 2007 sagðist ég í fyrsta sinn hafa heyrt í lóu í Öskjuhlíðinni, en sá enga.

Athygli mín var vakin á því, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, frambjóðandi Samfylkingar og þingmaður, hefði kosið að nota síðasta dálk sinn í Viðskiptablaðinu fyrir kosningar til að ráðast á mig fyrir að nota orðið „fullnaðarsigur“ í ræðu um stjórnarskrármálið á alþingi.

Ég minnist þess alls ekki að hafa notað þetta orð og velti fyrir mér, hvar þingmaðurinn var, þegar hún hlustaði á ræðuna, eða hvort hún hafi aðeins hlustað á Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann sinn, sem tönnlaðist á þessu orði.

Þessi dæmalausa gagnrýni Steinunnar Valdísar er aðeins til marks um, hve skringileg þessi kosningabarátta er. Hún snýst einkum um það, hver er að auglýsa hvað eða hve háa styrki menn fengu fyrir kosningar 2007 - svo að ekki sé minnst á tölur úr skoðanakönnunum, sem tönnlast er á.

ESB-blöðin, Fréttablaðið og Morgunblaðið reyna enn að halda því að fólki, að þjóðinni verði helst bjargað með því að fara inn í ESB og í furðufrétt á forsíðu Fréttablaðsins  í dag er látið eins og bresk stjórnvöld, sem settu okkur á bekk hryðjuverkamanna, vilji ólm fá okkur á hraðferð inn í ESB. Ætli þau séu að kaupa sér frið hjá Samfylkingunni í Icesave málinu með þessu? Skyldi Össur Skarphéðinsson hafa falast eftir þessu, þegar hann hitti David Miliband á dögunum? Kannski er Svavar Gestsson tekinn til við að semja um aðild Íslands að ESB en ekki um Icesave?

Heimir Már Pétursson á Stöð 2 segir rangt hjá mér, að hann hafi spurt Bjarna Benediktsson um setu Kjartans Gunnarssonar í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins eins og ég sagði í færslu hér 11. apríl. Þetta er rétt hjá Heimi Má og bið ég hann velvirðingar. Það var Aðalbjörn Sigurðsson hjá RÚV sem vék að miðstjórnarsetu Kjartans.